Tertukastari í 45 daga fangelsi

Solveig Horne, ráðherra jafnréttismála í Noregi varð fyrir kökukasti í …
Solveig Horne, ráðherra jafnréttismála í Noregi varð fyrir kökukasti í Pride gleðigöngunni í Osló í lok júní.

Rúmlega tvítug bresk kona var í dag dæmd í 45 daga fangelsi í Noregi fyrir að kasta tertu í andlitið á Solveig Horne, ráðherra jafnréttismála í Noregi. Tertukastið átti sér stað í gleðigöngunni Pride sem fór fram í Osló í lok júní.

Konan var sama dag úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna gruns um að hún myndi flýja land, og síðar var hún ákærð fyrir brot gegn embættismanni. Konan er búsett í Bretlandi. Við yfirheyrslur gaf hún engar skýringar á gjörðum sínum og neitaði að tjá sig að öllu leyti.

Refsiramminn fyrir brotið var 10 ára fangelsi. Tertan sem hún kastaði reyndist hættulaus og búin til úr raksápu. Um leið og Horne fékk kökuna yfir sig var rannsakað hvort tertan innihéldi hættuleg efni en svo reyndist ekki.

„Ég hef velt því fyrir mér hvað hefði gerst ef tertan væri úr einhverju hættulegu, innihéldi vopn eða hættulegan vökva,“ sagði Horne þegar hún bar vitni í málinu. Hún sagðist enn upplifa mikinn ótta eftir árásina.

Hin dæmda kona þarf ekki að greiða málskostnað, þar sem hún var hvorki skráð með fast starf né fast heimili.

Er þetta ekki í fyrsta sinn sem tertu er kastað í stjórnmálamann í Noregi. Árið 2005 var marsípanköku kastað í andlit Kristin Halvorsen, þáverandi fjármálaráðherra landsins. Hlaut sá árásarmaður 30 daga fangelsi.

Hæstiréttur Noregs sló því föstu árið 2007 að tertukast í stjórnmálamenn félli undir ákvæði hegningarlaga um brot gegn embættismönnum. 

Sjá frétt Dagbladet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert