Finnst Golíat í kirkjugarðinum?

AFP

Fornleifafræðingar hafa nú fundið kirkjugarð frá tímum filistea en þetta eru fyrstu veraldlegu ummerkin um þjóðina sem ól m.a. af sér sjálfan Golíat. Flestir þekkja biblíusöguna af Davíð og Golíat þar sem Davíð sigrar hinn risavaxna andstæðing sinn með fimm steinum sem hann kastaði úr slöngvu.

Sagnfræðingar hafa lengi reynt að fræðast meira um filistea og er vonast til þess að kirkjugarðurinn geti varpað ljósi á samfélag þeirra og lifnaðarhætti.

Talið er að kirkjugarðurinn sé um 3.000 ára gamall en hann fannst í Suður-Ísrael. Leitað hefur verið á svæðinu í rúm 30 ár.

„Þessi kirkjugarður mun kenna okkur margt um filistea sem við vissum aldrei,“ segir Daniel Master, prófessor í fornleifafræði við Wheaton-háskóla. „Við höfum lært um húsin þeirra, hvað þeir borðuðu og við hverja þeir versluðu, en nú sjáum við fólkið sjálft.“

Fornleifafræðingarnir hafa m.a. fundið beinagrindur, grafnar með leirkrukkum og skálum. Talið er að skálarnar hafi verið með ilmolíum.

Sumar beinagrindurnar skörtuðu armböndum og eyrnalokkum en aðrar voru með vopn. Þá mátti einnig finna ummerki um líkbrennslu í kirkjugarðinum og grafhýsi með mörgum herbergjum.

Bein úr garðinum verða prófuð á þrjá mismunandi vegu til þess að reyna að komast að því hvaðan filistear komu. Verða þau skoðuð útfrá DNA-prófunum, geislakolum og líffræðilegum prófunum.

Biblíusögur hafa gefið til kynna að þjóðin hafi komið frá Krít en Ashkelon, þar sem kirkjugarðurinn fannst, er þekkt sem ein af fimm borgum filistea. Hún var gríðarlega mikilvæg viðskiptaborg við Miðjarðarhafið fram að krossferðunum, en þá var hún eyðilögð.

Umfjöllun CNN.

Kirkjugarðurinn er fyrstu ummerkin um filistea sem fornleifafræðingar finna.
Kirkjugarðurinn er fyrstu ummerkin um filistea sem fornleifafræðingar finna. AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert