Hóta að grípa til harðra aðgerða

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, ásamt yfirmönnum hersins.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, ásamt yfirmönnum hersins. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa hótað að grípa til harðra aðgerða gegn Suður-Kóreu, verði bandarísku loftvarnakerfi komið fyrir á Kóreuskaganum.

Loftvarnakerfinu er að sögn fréttavefjar BBC ætlað að efla varnir Suður-Kóreu gegn mögulegum árásum Norður-Kóreu.

Í yfirlýsingu frá norðurkóreska hernum er því lýst yfir að her landsins muni ekki skirrast við að beita hefndaraðgerðum verði af uppsetningu kerfisins.

Eftir að Suður-Kórea og Bandaríkin tilkynntu um áform sín um uppsetningu loftvarnakerfisins sl. föstudag svaraði Norður-Kórea tilkynningunni með enn einni flugskeytatilrauninni nú um helgina. Norður-Kóreumenn hófu eldflaugatilraunir í febrúar síðastliðnum þrátt fyrir ítrekuð bönn við slíku.

Ekki liggur enn fyrir hvar loftvarnakerfið verður staðsett, né heldur hvort það verði stjórnvöld í Suður-Kóreu eða Bandaríkjunum sem haldi um stjórnartaumana.

Yfirvöld í Norður-Kóreu senda reglulega frá sér slíkar hótanir í garð Suður-Kóreu og Bandaríkjanna, en vaxandi ólga hefur verið í samskiptum ríkjanna undanfarið. Þegar yfirvöld í Bandaríkjunum settu Norður-Kóreu á svartan lista í síðustu viku vegna ítrekaðra mannréttindabrota, lýsti Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, því yfir að þetta jafngilti stríðsyfirlýsingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert