Bowie heillar dýralækna

Kóalabirnan Bowie þykir einstök vegna mislitra augna sinna og hefur …
Kóalabirnan Bowie þykir einstök vegna mislitra augna sinna og hefur heillað ástralska dýralækna. AFP

Kóaladýrið Bowie hefur heillað ástralska dýralækna. Kóalabjörninn var nýlega lagður inn á Australia Zoo Wildlife-dýraspítalann í nágrenni Brisbane eftir að ekið hafði verið á hann og kom það dýralæknum þar á óvart að uppgötva að björninn var með mislit augu.

Annað auga Bowie er brúnt og hitt blátt, líkt og á söngvaranum heitna sem björninn hefur verið skírður í höfuðið á.

Heilkennið nefnist heterochromia og er einkar sjaldgæft og til komið vegna víkjandi gens sem erfist frá foreldrum og hefur áhrif á lithimnu augans.

Dýralæknarnir segja heilkennið ekki hafa áhrif á sjón Bowie. „Auk þess að vera einkar heppinn að slasast ekki alvarlega er hann alveg einstakur þar sem heterochromia er ekki algeng hjá kóalabjörnum,“ sagði dýralæknirinn Sharon Griffiths, sem kvað Bowie einungis hafa marist á fæti við áreksturinn.

Algengara er að hundar og kettir séu með heterochromiu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert