Örvæntingarfullur flótti af vígakri

Nyamal er þriggja ára. Hún flúði ásamt fjölskyldunni undan átökum …
Nyamal er þriggja ára. Hún flúði ásamt fjölskyldunni undan átökum í borginni Bor fyrir nokkrum mánuðum. Ljósmynd/Unicef

Öngþveiti og örvænting eru allsráðandi í Suður-Súdan, yngsta ríki heims. Þyrlur hafa sveimað yfir skotmörkum sínum og engum hlíft við kúlnahríðinni. Hjálparsamtök og alþjóðastofnanir reyna að forða starfsfólki úr landinu. Íbúarnir hafa hins vegar ekkert skjól fyrir grimmilegum átökunum sem blossuðu upp af krafti á föstudag. Þeir földu sig í húsum sínum er á mestu gekk um helgina en síðan þá hafa 36 þúsund manns flúið höfuðborgina Juba. Í sveitunum hafa stríðandi fylkingar mánuðum saman staðið í blóðugum átökum. Óbreyttir borgarar, hvort sem það eru fullorðnir eða börn, hafa fengið að finna fyrir því. Þúsundir hafa verið myrtar. Ekki er hægt að setja tölu á þann fjölda kvenna og stúlkna sem hefur verið nauðgað.

Fréttaskýring mbl.is: Flýja grimmd og leita vonar

Því var fagnað um gjörvalla heimsbyggðina er Suður-Súdan var stofnað árið 2011 með klofningi frá Súdan. Bandaríkjamenn voru nokkurs konar ljósmóðir sjálfstæðis þess. Vonast var til að með þessu myndi komast á friður á svæðinu en hörð átök höfðu geisað, m.a. um olíuauðlindir, áratugum saman. Milljónir lágu í valnum.

Vannærðum börnum hefur fjölgað gríðarlega í Suður-Súdan síðustu mánuði. Hungursneyð …
Vannærðum börnum hefur fjölgað gríðarlega í Suður-Súdan síðustu mánuði. Hungursneyð vofir yfir. AFP

En allt frá stofnun hefur þjóðin þurft að þola vopnuð átök sem endað hafa í blóðbaði þar sem tugþúsundir hafa látið lífið og efnahagur landsins er ekkert annað en rjúkandi rústir. Hundruð þúsunda hafa flúið til nágrannalandanna, m.a. Úganda, og jafnvel stríðshrjáðra landa eins og Austur-Kongó og Mið-Afríkulýðveldisins sem segir sína sögu um neyðina.

Ofan á allt saman er Suður-Súdan á barmi hungursneyðar. Hún er til komin vegna borgarastríðsins en einnig vegna uppskerubrests vegna þurrka. Þurrkarnir eru sagðir óvenjulegir og raktir til loftslagsbreytinga. 

Frétt mbl.is: Börnin lifa á berjum og laufum

Um helgina stóð til að fagna fimm ára sjálfstæði. Hátíðarhöldum af því tilefni var þó frestað er bardagarnir brutust út í Juba. 

Saga þessa unga ríkis hefur því allt frá upphafi verið blóði drifin. 

Sjálfstæðinu fagnað

Þann 9. júlí árið 2011 lýsti Salva Kiir, forseti Suður-Súdans, yfir sjálfstæði landsins að viðstöddum mörg þúsund löndum sínum og nokkrum erlendum þjóðarleiðtogum. 

 Suður-Súdan hafði þá haft sjálfstjórn eftir aðskilnað frá Súdan í sex ár. Þar á undan fóru áratugir af grimmilegu ofbeldi borgarastyrjaldarinnar. Mest voru átökin frá seinni hluta sjötta áratugarins og til ársins 1972. Þau blossuðu svo aftur upp árið 1983 og geisaði styrjöld til ársins 2005. Milljónir manna létu lífið. 

Árið 2005 var skrifað undir friðarsamkomulag milli norður- og suðurhluta landsins. Í kjölfarið var kosið um sjálfstæði og var niðurstaðan sú að 99% íbúa í suðrinu vildu fullan aðskilnað og sjálfstæði frá Súdan. 

Langar raðir flóttafólks við flóttamannabúðir í Wau í Suður-Súdan. Tugir …
Langar raðir flóttafólks við flóttamannabúðir í Wau í Suður-Súdan. Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín. AFP

Þrátt fyrir að sjálfstæði sé í höfn er þó enn deilt um ýmis mál milli ríkjanna tveggja, m.a. hvernig á að deila arði af olíunni og hvar endanleg landamæri eigi að liggja. Það hefur orðið til þess að ákveðin svæði á mörkum ríkjanna hafa orðið illa úti í átökum. 

Og olían er enn eitt helsta bitbeinið. Árið 2012 brutust út átök milli herja landanna vegna olíuauðlinda í Heglig, svæði sem bæði löndin gera tilkall til.

Þegar Suður-Súdan fékk sjálfstæði kom meirihluti olíuauðlindanna í þeirra hlut. En þar sem ríkið er landlukt stólar það á innviði Súdans til að flytja hráolíuna út. Tekist var á um kostnaðinn við að flytja olíuna um lagnakerfi Súdana. Deilurnar enduðu með því að Súdanar tóku hluta af olíunni sem féll ekki í kramið hjá Suður-Súdönum. Þeir gripu því til þess ráðs að hætta að dæla hráolíu um olíuleiðsluna.

Svona var ástandið næstum allt árið 2012. Það var ekki fyrr en í apríl árið á eftir að olía úr suðrinu fór aftur að streyma í gegnum leiðslurnar í Súdan.

En svo fór allt til fjandans í Suður-Súdan.

Í desember árið 2013, tveimur árum eftir að sjálfstæði landsins hafði verið tryggt, brutust út skotbardagar í höfuðborginni Juba. Átökin áttu sér pólitískar rætur. Riek Machar, sem tilheyrir næstfjölmennustu þjóð Suður-Súdan, Nuer-fólkinu, var rekinn úr embætti varaforseta. Forsetinn Kiir sem tilheyrir stærstu þjóðinni, Dinka-fólkinu, sakaði Machar um misheppnað valdarán. 

Machar hefur ætíð þvertekið fyrir þetta en að sama skapi sakað Kiir um valdagræðgi og að hafa hreinsað út úr stjórnunarstöðum þá sem tilheyrðu öðrum en Dinka-fólkinu. 

Átökin sem fylgdu þessum deilum voru hryllileg. Þjóðernishreinsanir hófust í Juba og breiddust síðar út til annarra svæða. 

Það var svo ekki fyrr en í ágúst í fyrra sem samið var um vopnahlé. Samningurinn gekk einnig út á að dreifa völdum í landinu betur. Samkomulagið var viðkvæmt frá upphafi. Kiir forseti setti til dæmis ýmsa fyrirvara við það. 

Suður-Súdan er landlukt ríki og stólar á Súdan að koma …
Suður-Súdan er landlukt ríki og stólar á Súdan að koma hráolíunni úr landi. Það hefur reynst þrautin þyngri. Skjáskot/Google maps.

 Áfram geisaði óöldin víða um land. Líkin hrönnuðust upp og þúsundir streymdu yfir landamærin til nágrannalandanna. Fréttir bárust af skipulögðum nauðgunarherferðum. Einnig af því að drengir væru teknir með valdi og þvingaðir í hersveitir stríðandi fylkinga. Stundum voru þeir geltir. Viðurstyggileg voðaverk voru viðvarandi. Hýenur og krókódílar sáu svo um að éta líkin og þannig fela sönnunargögnin.

Í lok apríl á þessu ári sneri Machar loks til Juba til að taka við varaforsetaembættinu á ný. Kiir forseti skipaði svo nýja ríkisstjórn. En allt kom fyrir ekki, átökin héldu áfram. 

Það sauð svo upp úr af krafti síðasta föstudag, degi áður en fagna átti fimm ára sjálfstæði Suður-Súdans. 150 hermenn voru drepnir í höfuðborginni í bardögum sem hófust við forsetahöllina. Til stóð að Kiir og Machar myndu flytja þjóð sinni boðskap friðar á þessum merku tímamótum. Af því varð ekki. 

Á sunnudag hófust svo átökin að nýju. Uppreisnarmenn og stjórnarherinn tókust á með mikilli skothríð. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krafðist vopnahlés. Í gær upphófst svo enn eitt áhlaupið þar sem skriðdrekar og vígbúnar þyrlur léku stórt hlutverk. 

Í dag herma fréttir að sprengjuregninu og skothríðinni hafi slotað og að vopnahléið sé virt. Hljóðlátt sé í höfuðborginni Juba. 

En borgarbúar hafa lagt á flótta. 

Engar upplýsingar hafa borist af mannfalli óbreyttra borgara enda Suður-Súdan eitt einangraðasta ríki heims hvað upplýsingagjöf varðar. 

Hvað gerist á morgun veit enginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert