Vopnahlé komið á í Suður-Súdan

Fjöldi manns leitaði skjóls á landsvæði Sameinuðu þjóðanna í Juba, …
Fjöldi manns leitaði skjóls á landsvæði Sameinuðu þjóðanna í Juba, í átökum helgarinnar. AFP

Vopnahlé stríðandi fylkinga í Suður-Súdan virðist halda, eftir fjögurra daga átök í höfuðborg landsins, Juba, sem kostuðu á þriðja hundrað manns lífið, að sögn fréttavefjar BBC.

Forseti og varaforseti landsins skipuðu fylgismönnum sínum í gær að láta af bardögum og ríkir nú þögn í borginni.

Það var í gærkvöldi sem forsetinn, Salva Kiir, og andstæðingur hans, varaforsetinn Riek Machar, fyrirskipuðu vopnahléið. Deilur milli fylgismanna Kiir og Machar hafa undanfarið ógnað friðarsamkomulagi sem undirritað var í ágúst á síðasta ári.

Suður-Súdan lýsti yfir sjálfstæði frá Súdan árið 2011 og hefur borgarastyrjöld varpað skugga á stutta sögu landsins sem sjálfstæðs ríkis.

Alþjóðasamfélagið hefur sett mikinn þrýsting á Kiir og Machar að binda endi á átökin og hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum sagt hvern þann sem reynir að hindra friðarferlið verða dreginn til ábyrgðar.

Þá hefur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hvatt til vopnasölubanns til Suður-Súdan, sem og að herþyrlur verði sendar til að aðstoða þá 13.000 friðargæsluliða sem nú eru að störfum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert