Ástandið „algjörlega óásættanlegt“

Um 3.000 manns á flótta hafast við fyrir utan starfsstöð …
Um 3.000 manns á flótta hafast við fyrir utan starfsstöð Sameinuðu þjóðanna í höfuðborginni Juba. Börn eru þar í meirihluta. AFP

Ástandið í Suður-Súdan, þar sem hundruð hafa látið lífið í átökum síðustu fjóra daga, er „algjörlega óásættanlegt“. Þetta segir forseti Afríkusambandsins, Nkosazana Dlamini-Zuma.

Átök blossuðu aftur upp í landinu á föstudag, degi áður en halda átti upp á 5 ára sjálfstæði ríkisins.

Fréttaskýring mbl.is: Örvæntingarfullur flótti af vígakri

Bardagarnir eru á milli stuðningsmanna varaforsetans Riek Mach­ar og forsetans Sal­va Kiir. Forsetinn rak varaforsetann úr embætti árið 2013 fyrir að hafa reynt misheppnað valdarán. Varaforsetinn hefur hins vegar ávallt neitað því og segir að málið snúist um að koma þjóð hans, Nuer-fólk­inu, frá völdum. Með samkomulagi sem náðist fyrir nokkru samþykkti Kiir að setja Machar aftur í embætti. 

Þrátt fyrir að þeir tveir hafi náð sáttum, að minnsta kosti opinberlega, eru stuðningsmenn þeirra ekki tilbúnir að kyngja því.

„Ríkisstjórnir og leiðtogar eiga að vera til staðar til að vernda þá sem eru viðkvæmir og til að þjónusta sitt fólk. Ekki að valda því þjáningu,“ sagði Dlamini-Zuma, forseti Afríkusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert