Neyðarlögin verða ekki framlengd

Francois Hollande, forseti Frakklands, telur ekki þörf á því að …
Francois Hollande, forseti Frakklands, telur ekki þörf á því að framlengja neyðarlög í landinu. AFP

Frakkar munu ekki framlengja neyðarlög í landinu sem voru sett eftir hryðjuverkin í París í nóvember. Neyðarlögin falla úr gildi 26. júlí næstkomandi að sögn Francois Hollande, forseta Frakklands.

Í árlegu viðtali í tilefni þjóðhátíðardags Frakka í dag, Bastilludeginum, sagði forsetinn að það væri ekkert vit í því að framlengja neyðarlögin um óákveðinn tíma en Frakkar hafa framlengt lögin tvisvar síðan í nóvember.

Þau voru síðast framlengd svo þau væru áfram í gildi þegar Evrópumótið í knattspyrnu fór þar fram í sumar og hjólreiðakeppnin Tour de France.

Neyðarlögin voru sett í Frakklandi eftir að 130 manns létu lífið í hryðjuverkaárásum Ríkis íslams í París 13. nóvember síðastliðinn. Árásirnar voru gerðar á tónleikahöll, veitingastaði og íþróttaleikvanginn Stade de France, þar sem landsleikur var í gangi.

Í janúar sama ár var gerð hryðjuverkaárás á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo og gíslataka í matvöruverslun. Alls létust 17 manns í þeim árásum.

Nýlega kom þó í ljós, að að mati sérstakrar nefndar höfðu neyðarlögin aðeins „takmörkuð áhrif“ á öryggi þjóðarinnar.

Frétt BBC.

130 létu lífið í hryðjuverkaárásum í París 13. nóvember síðastliðinn.
130 létu lífið í hryðjuverkaárásum í París 13. nóvember síðastliðinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert