Sagði Boris Johnson lygara

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands.
Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands. AFP

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, hefur kallað hinn nýskipaða breska starfsbróður sinn, Boris Johnson, lygara. Ummælin lét Ayrault falla í viðtali við útvarpsstöðina Europe 1. BBC greinir frá þessu.

Utanríkisráðherrann segir Johnson hafa logið að bresku þjóðinni í aðdraganda Brexit-atkvæðagreiðslunnar. „Ég hef ekki áhyggjur af Boris Johnson, en þú veist hvernig hann er, hvernig aðferðir hans voru fyrir atkvæðagreiðsluna – hann laug mikið að breskum almenningi.“

Segir hann Johnson hafa stillt sjálfum sér upp við vegg og þurfi nú að vernda þjóð sína, á sama tíma og sambandið við Evrópu þurfi að skýrast. „Ég þarf félaga sem ég get átt samningaviðræður við og er skýr, trúanlegur og áreiðanlegur,“ sagði Ayrault og bætti við að óvissuástandið mætti ekki dragast óþarflega á langinn.

Nýr forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, hefur rætt við Francois Hollande Frakklandsforseta um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en hún segir Breta þurfa tíma til að undirbúa samningaviðræður við sambandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert