Áður komist í kast við lögin

Saksóknari málsins, Francois Molins, á blaðamannafundi í dag.
Saksóknari málsins, Francois Molins, á blaðamannafundi í dag. AFP

Lögreglumenn eltu Mohamed Lahouaiej Bouhlel um 300 metra áður en þeir skutu hann til bana. Þá hafði hann ekið yfir fólk á um tveggja kílómetra löngum kafla á strandgötunni í Nice.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli saksóknarans Francois Molins á blaðamannafundi klukkan þrjú að íslenskum tíma í dag.

Fram kom að árásarmaðurinn hefði leigt flutningabílinn 11. júlí síðastliðinn og átt að skila honum síðasta miðvikudag.

Hann ók bílnum á miklum hraða inn í hóp fólks og skaut ítrekað að þremur lögreglumönnum sem reyndu að stöðva för hans. Lögreglumenn eltu hann og skutu á móti. Við tók skotbardagi þeirra á milli, en að lokum fundu lögreglumennirnir manninn látinn í farþegasæti bílsins, að sögn saksóknarans.

Saksóknarinn sagði að rannsókn málsins hefði hafist með formlegum hætti strax eftir miðnætti í nótt. Rannsakendur væru meðal annars að skoða hvort Mohamed tengdist hryðjuverkastarfsemi með einhverjum hætti. „Við höfum skoðað skipulagða hópa og allar tengingar við hryðjuverkahópa,“ sagði hann á blaðamannafundinum.

Vopn fundust í bílnum

Í flutningabílnum fundust sjálfvirkir rifflar, tveir Kalashnikov-rifflar, byssuskot og handsprengja. Fyrri fregnir frá því í morgun hermdu að byssurnar hefðu verið leikfangabyssur.

Einnig fannst þar farsími, ökuskírteini og upplýsingar um bankareikning hans.

Mohamed fæddist 3. janúar 1975 í Túnis. Hann var búsettur í Nice og starfaði sem bílstjóri og sendill. Þá var hann giftur og átti börn. Fyrrverandi eiginkona hans var handtekin fyrir hádegi í dag.

Áður komið við sögu lögreglu

Einnig kom fram í máli saksóknarans að Mohamed hefði áður komist í kast við lögin. Hann hefði verið staðinn að ýmsum brotum, flestum smávægilegum, á árunum 2010 til 2016. Hann var handtekinn 23. mars á þessu ári og dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir glæp. Þá var hann sakfelldur fyrir byssuofbeldi í janúarmánuði.

Hjólið hans fannst jafnframt í flutningabílnum.

Húsleit var gerð í íbúð hans í morgun en saksóknarinn sagði að þar hefðu fundist ýmis skjöl og önnur gögn, til dæmis á tölvutæku formi, sem munu nýtast vel í rannsókninni.

„Við verðum að komast að því hvort það voru einhverjir vitorðsmenn eða einhver tengsl við íslömsk hryðjuverkasamtök,“ bætti saksóknarinn við.

Hann tók fram að enginn hefði lýst ódæðinu á hendur sér.

52 alvarlega slasaðir

Þá kom fram í máli saksóknarans að 84 hefðu látið lífið í árásinni. 202 slösuðust og þar af 52 alvarlega. Hann tók sérstaklega fram að þessar tölur gætu hækkað.

„Hryðjuverkamaðurinn sem ók trukknum, eins og þið vitið, var skotinn til bana til þess að koma í veg fyrir að hann fremdi fleiri brot.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert