Vilja ekki annað þjóðaratkvæði

AFP

Mikill meirihluti Breta vill ekki að fram fari önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um veru Bretlands í Evrópusambandinu (ESB), samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar, samkvæmt frétt Reuters, þegar samningur um úrsögn landsins liggur fyrir. Samþykkt var í þjóðaratkvæði sem fram fór 23. júní að Bretland segði skilið við sambandið en ýmsir hafa síðan kallað eftir því að kosningin yrði endurtekin með einum eða öðrum hætti.

Skoðanakönnunin var gerð af fyrirtækinu ComRes fyrir bresku blöðin Sunday Mirror og Independent dagana 13. til 15. júlí og náði til rúmlega tvö þúsund manns, en samkvæmt henni eru 57% andvíg því að boðað verði til nýs þjóðaratkvæðis um málið. Tæpur þriðjungur, eða 29%, er því hins vegar hlynntur.

Fleiri eru enn fremur andvígir því að boðað verði til nýrra þingkosninga eða 46% á móti 38%. Nýr forsætisráðherra Bretlands, Theresa May sem sjálft studdi áframhaldandi veru í ESB, hefur lýst því yfir að hvorki verði boðað til nýs þjóðaratkvæðis né nýrra þingkosninga.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert