Börn létu lífið í loftárásum

Særður Sýrlendingur fluttur á brott.
Særður Sýrlendingur fluttur á brott. AFP

Að minnsta kosti 28 létu lífið í loftárásum í sýrlensku borginni Aleppo í gær, þar á meðal börn. Loftárásirnar voru gerðar af rússneskum eða sýrlenskum orrustuþotum á svæði undir stjórn uppreisnarmanna í austurhluta borgarinnar.

Samtökin The Syrian Observatory for Human Rights greina frá þessu.

Í einu hverfi varð spítali fyrir loftárás og starfsfólk og sjúklingar særðust. „Alls konar vopn voru notuð til þess að sprengja sjúkrahúsið, frá miðnætti til um klukkan 11 í morgun. Nú er sjúkrahúsið ónothæft,“ sagði læknirinn Mohammad Kheir í samtali við AFP.

Sýrlensk yfirvöld greindu frá því í gær að vesturhluti borgarinnar, sem er undir stjórn yfirvalda, hafi orðið fyrir sprengjuárásum uppreisnarmanna. Að minnsta kosti einn lét lífið.

Aleppo var eitt sinn helsta viðskipta- og iðnaðarborg Sýrlands. Henni hefur verið skipt í tvennt síðan 2012, stjórnvöld með vesturhlutann en uppreisnarmenn með austurhlutann.

Síðustu mánuði hafa hersveitir stjórnvalda náð að umkringja svæði uppreisnarmannanna og lokað á helstu leið þeirra til Tyrklands frá borginni. Síðan þá hafa stjórnvöld náð að sækja á uppreisnarmenn í borginni.

Frétt BBC.

Maður syrgir látið barn eftir loftárásirnar í Aleppo í gær.
Maður syrgir látið barn eftir loftárásirnar í Aleppo í gær. AFP
Svona var umhorfs á Omar bin Abdaziz-sjúkrahúsinu eftir loftárásirnar.
Svona var umhorfs á Omar bin Abdaziz-sjúkrahúsinu eftir loftárásirnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert