„Ég gaf henni töflu og kyrkti hana svo“

Qandeel Baloch á blaðamannafundi í Lahore í síðasta mánuði.
Qandeel Baloch á blaðamannafundi í Lahore í síðasta mánuði. AFP

Bróðir pakistanskrar samfélagsmiðlastjörnu, sem var drepin á föstudaginn, hefur verið handtekinn og hefur viðurkennt að bera ábyrgð á dauða hennar. Waseem Baloch, bróðir Qandeel Baloch, var handtekinn í borginni Dera Ghazi Khan eftir að hafa flúið lögreglu á föstudagskvöld. 

Dagblaðið The Dawn heldur því fram að bróðirinn hafi viðurkennt drápið, sagst hafa byrlað systur sinni ólyfjan á föstudaginn áður en hann kyrkti hana fyrir að „vanhelga Baloch-nafnið“.

„Hún vissi ekki að ég væri að drepa hana. Ég gaf henni töflu og kyrkti hana svo,“ á hann jafnframt að hafa sagt. 

Qandeel Baloch var 26 ára og fræg á landsvísu fyrir djarfar myndir og texta sem hún birti á samfélagsmiðlum. Að mati sumra var hún fulltrúi nýrrar kynslóðar í Pakistan sem þorði að tjá sig um það sem brann á henni. Hún var jafnframt fulltrúi ungra stúlkna í landinu sem hefur svo lengi verið haldið niðri og hafði oft gagnrýnt feðraveldið sem stjórnar öllu í Pakistan. 

Í kjölfarið varð hún fyrir miklu áreiti, sértaklega á netinu. 

„Það skiptir engu máli hversu oft mér er ýtt niður, ég berst, ég kem til baka,“ skrifaði Qandeel á Facebook nokkrum dögum áður en hún var drepin. 

Svo virðist sem morðið á henni, sem sumir kalla „heiðursmorð“, hafi skapað spennu milli fólks í landinu með ólíkar skoðanir og að mati blaðamanns BBC hefur það sýnt hversu klofin þjóðin er.

Sumir héldu því fram á samfélagsmiðlum að bróðirinn hafi haft rétt á að drepa Qandeel. „Kona sem ákveður að birta nektarmyndir af sér til þess að fá athygli. Hvað á bróðir hennar að gera?“ spurði einn Twitter-notandi frá Islamabad.

Þingkonan Nafisa Shah sagði hins vegar að Qandeel hafi verið mikilvægur fulltrúi þeirra sem vilja afhjúpa félagslegu hræsnina sem fær að lifa í Pakistan. Þá sagði hún löggjöfina í landinu ámælisverða sem gæti gert bróður hennar kleift að komast upp með morðið.

Qandeel hafði lengi óttast um líf sitt og verið hótað vegna opinskárra skoðana sinna. Hún hafði nýlega skrifað bréf til innanríkisráðuneytis Pakistan þar sem hún óskaði eftir vernd.  

Frétt BBC.

Wasim var handtekinn í morgun.
Wasim var handtekinn í morgun. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert