Skaut tvo til bana á sjúkrahúsi

Lögreglumaður að störfum í Orlando. Mynd úr safni.
Lögreglumaður að störfum í Orlando. Mynd úr safni. AFP

Byssumaður skaut tvo til bana á sjúkrahúsi í Flórída í Bandaríkjunum í morgun. Fórnarlömb mannsins voru eldri kona sem var sjúklingur á sjúkrahúsinu og kvenkyns starfsmaður. Ekki liggur fyrir ástæða drápanna.

Maðurinn skaut konurnar á þriðju hæð Parrish Medical Center-sjúkrahússins í Titusville, sem er í um 64 kílómetra fjarlægð frá Orlando.

Lögregla handtók byssumanninn á sjúkrahúsinu en nafn hans hefur ekki verið gefið upp.

Óvopnaðir öryggisverðir náðu að yfirbuga manninn áður en lögregla kom á staðinn. Hinn grunaði þekkti ekki fórnarlömbin og tengdist ekki sjúkrahúsinu að sögn lögreglustjórans Wayne Ivey. „Þetta virðist hafa verið handahófskennt,“ sagði hann í samtali við fjölmiðla. Ítrekaði hann þó að rannsókn málsins væri skammt á veg komin.

Í síðasta mánuði drap byssumaður 49 inni á skemmtistað í Orlando. Var það blóðugasta byssuárás í sögu Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert