9% flóttafólks í ríkustu löndunum

Flóttafólk frá Sýrlandi hefst við í flóttamannabúðum í Grikklandi.
Flóttafólk frá Sýrlandi hefst við í flóttamannabúðum í Grikklandi. AFP

Sex ríkustu lönd heims hafa innan við 9% flóttafólks jarðar innan sinna landamæra eða um 2,1 milljón. Af löndunum sex eru flestir flóttamenn í Þýskalandi, um 700 þúsund talsins. Í fátækari löndum eru mun fleiri flóttamenn. Í  Jórdaníu, Tyrklandi, Pakistan, Líbanon, Suður-Afríku og Palestínu eru samtals 12 milljónir flóttamanna.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá bresku hjálparsamtökunum Oxfam.

Bandaríkin, Kína, Japan, Þýskaland, Frakkland og Bretland eru sex ríkustu ríki heims. Til stendur að halda ráðstefnu um flóttafólk í New York í september og hefur Oxfam farið fram á að ríkari þjóðir taki meiri þátt í að leysa flóttamannavandann, m.a. með því að taka við fleira flóttafólki.

„Það er skammarlegt að svo margar ríkisstjórnir snúi baki í milljónir jarðarbúa sem eru í viðkvæmri stöðu, þjást og hafa þurft að flýja heimili sín. Í leit að öryggi hætta þeir oft lífi sínu,“ segir Winnie Byanyima, framkvæmdastjóri Oxfam. Hún segir að fátækari ríki beri þyngstar byrðar þegar komi að því að taka á móti flóttafólki.

Aldrei hefur fleira fólk verið á flótta en nú um stundir. Meira en 65 milljónir manna, einn af hverjum 113 mönnum á jörðinni, hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna átaka, ofbeldis og ofsókna. Fjöldinn hefur aukist um 5,8 milljónir á milli áranna 2015 og 2016.

Flestir eru á flótta frá Sýrlandi en fólk er einnig að flýja átök í Búrúndi, Írak, Suður-Súdan og Jemen auk fleiri landa.

Byanyima segir að þar sem fjöldi flóttafólks sé fordæmalaus verði að grípa til samhæfðra aðgerða um allan heim. „Auðugu ríkin verða að vera hluti af lausninni og taka ábyrgð með því að bjóða flóttafólk velkomið og veita því vernd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert