Sex létust úr sjö manna fjölskyldu

Hinn fjögurra ára Killian frá Lyon var eitt yngsta fórnarlamb …
Hinn fjögurra ára Killian frá Lyon var eitt yngsta fórnarlamb árásarmannsins. Mynd/Twitter

Sjö manna fjölskylda var viðstödd hátíðarhöldin í Nice í Frakklandi 14. júlí síðastliðinn. Sex þeirra létu lífið í árás Mohameds Lahouaiej-Bouhlels.

Christoph Lion er sá eini úr fjölskyldunni sem slapp lifandi frá árásinni. Stjúpsonurinn, eiginkonan, foreldrarnir og tengdaforeldrarnir létust öll í árásinni.

Stjúpsonur Lions, framhaldsskólakennarinn Michael Pellegrini, var einn þeirra sem létust í árásinni. „Hann sagði við okkur að hann hlakkaði til að eyða nokkrum dögum með móður sinni. Hann hlakkaði til að sjá flugeldasýninguna,“ segir yfirmaður Pellegrinis í samtali við Republicain Lorrain.

Michael Pellegrini var einn þeirra sem létust í árásinni í …
Michael Pellegrini var einn þeirra sem létust í árásinni í Nice. Myndin er fengin af minningarsíðu hans á Facebook. Mynd/Facebook

Amma og afi Pellegrinis, Francois og Christiane Locatelli, bjuggu nálægt honum og ferðuðust einnig til Nice í sumarfrí. Þau létu lífið í árásinni ásamt móður Pellegrinis, Véronique Lion. Mikil sorg ríkir í heimabæ þeirra, Herseranges. „Í smábæ með aðeins 4.400 íbúa þekkja allir alla. Missirinn er gríðarlegt áfall fyrir íbúa bæjarins. Þau voru vinsæl hér í bænum og það gerir áfallið enn meira,“ segir bæjarstjóri Herseranges við Le Parisien

Alls létust 84 í árásinni, þar á meðal 10 börn.

Leitaði að syninum á spítölum í Nice

Hinn fjögurra ára Killian frá franska bænum Lyon er yngsta fórnarlamb árásarinnar. Móðir hans lést einnig í árásinni. Tahar Mejri, faðir drengsins, þurfti að leita að honum á spítölum borgarinnar eftir árásina og komst að lokum að því að Killian hafði látist af sárum sínum. Samkvæmt frönskum fjölmiðlum ætlar Tahar að reyna að koma eiginkonunni og syninum til heimalands síns Túnis og gera jarðarförina þar. 

Tahar Mejri gekk á milli spítala í Nice í leit …
Tahar Mejri gekk á milli spítala í Nice í leit að syni sínum Killian. Að lokum komst hann að því að sonurinn lést í árásinni. AFP

Lést á uppáhaldsstaðnum sínum

Annað ungt fórnarlamb árásarinnar var hinn fjögurra ára drengur Yannis Coviaux. Hann sat og lék sér með dótabílinn sinn á gangstétt í Nice þegar árásin hófst. Varð hann fyrir vörubifreið árásarmannsins og lést samstundis. 

Faðir Coviaux ræddi nýlega við TheTelegraph um soninn, sem elskaði ferðalögin til Nice og þá sérstaklega strendurnar þar. „Hann elskaði að vera hérna. Hann gat setið tímunum saman að kasta steinum í sjóinn, stundum óvart í fólk,“ segir faðirinn. „Eiginkona mín vildi endilega fara að sjá flugeldana um kvöldið. Hún vildi gera það til að gleðja Yannis. Við vorum á ströndinni með vinum okkar og börnum þeirra. Yannis var glaður, hann hljóp um allt og lék sér með vinum sínum.“

Frá götunni þar sem árásin varð.
Frá götunni þar sem árásin varð. AFP

Voru þau á leið frá flugeldasýningunni þegar árásin hófst. „Sonur minn var aðeins fyrir aftan okkur með vinum sínum. Ég rétt náði að grípa í eiginkonu mína og toga hana frá vörubílnum sem kom á fullri ferð. Hann var um það bil 10 cm frá því að keyra okkur niður. Þegar ég stóð aftur upp og náði áttum hafði fólk safnast saman í kringum okkur. Ég vonaði að Yannis væri öruggur,“ segir faðir drengsins. Hins vegar blasti önnur sjón við honum. Yannis hafði orðið fyrir bílnum og lá í blóði sínu á gangstéttinni. Hann gerði sér strax grein fyrir því að sonurinn hefði látist samstundis, en tók hann samt í arma sér og hljóp með hann um 600 metra leið að næsta spítala. Bílstjóri sá manninn hlaupa með drenginn og bauð honum far. Var þeim feðgum þá ekið á spítalann. Þar fékk hann skilaboðin sem hann óttaðist, en vissi í raun að myndu fást. 

Gengu þau hjónin þá niður á strönd þar sem þau reyndu að ná áttum. „Ég hélt á látnum syni mínum í hálftíma á ströndinni þar til björgunarsveitirnar komu. Sonur minn lést á uppáhaldsstaðnum sínum. Það er ekkert eftir hér inni í mér. Það er eins og hjartað mitt hafi verið rifið úr mér,“ segir Mickael Coviaux við The Telegraph.

Frá minningarathöfn á götunni þar sem árásin varð í Nice.
Frá minningarathöfn á götunni þar sem árásin varð í Nice. AFP

Sjö barna móðir á meðal fórnarlamba

Franskir fjölmiðlar hafa nú reynt að kortleggja fórnarlömb árásarinnar. Þeir hafa komist að því að fórnarlömbin koma frá Frakklandi, Túnis, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Sviss, Alsír, Póllandi, Marokkó, Rússlandi og Madagaskar. Ekki hafa verið borin kennsl á alla hina látnu. 

Önnur kona sem lét lífið var hin marokkóska Fatima Charrihi. Hún skilur eftir sig sjö börn. Fjölmiðlar segja hana hafa verið fyrsta fórnarlamb árásarinnar. Sonur hennar hefur tjáð sig við franska blaðið L'express. „Móðir mín tilbað hið ekta íslam, ekki það íslam sem árásarmaðurinn studdi,“ sagði hann í viðtali. 

Sjá frétt Verdens gang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert