Smygla nashyrningshorni og fílabeini

Kim Jong-un skoðar tösku, sem gæti verið tilvalin fyrir smygl.
Kim Jong-un skoðar tösku, sem gæti verið tilvalin fyrir smygl. AFP

Samkvæmt nýútkominni skýrslu samtaka gegn skipulagðri alþjóðaglæpastarfsemi, Global Initiative Against Transnational Organised Crime (GIATOC), stunda starfsmenn norðurkóreskra sendiráða umfangsmikið smygl á nashyrningshornum og fílabeini frá Afríku.

Dýraafurðir í Afríku

Helsta miðstöð ólöglegrar verslunar með nashyrningshorn er Mósambík, þar sem spilling gerir smyglurum auðvelt fyrir í höfnum, á flugvöllum og við landamæragæslu landsins. Í skýrslunni kemur fram að af 29 málum sem upp hafa komið síðan 1986, og varða smygl á nashyrningshornum og fílabeini frá Afríku, hafi norðurkóreskir sendirráðsstarfsmenn verið viðriðnir 16 þeirra, en líklegt sé að mál sem ekki hafi komist upp, séu mun fleiri.

Horn nashyrninga eru verðmæt.
Horn nashyrninga eru verðmæt. Mynd/Wikipedia

Sendiráðin stunda smyglið einfaldlega til að komast af og með fullri vitneskju norðurkóreskra stjórnvalda, en Norður-Kórea heldur úti 11 sendiráðum í Afríku í dag. Í skýrslu GIATOC er rakið mál sem upp kom í Mósambík á síðasta ári, en þar stöðvaði mósambísk lögregla bifreið með diplómatabílnúmer í höfuðborg landsins, Maputo. Í bílnum voru Pak Chol-jun, ráðgjafi og næstráðandi í sendiráði Norður-Kóreu í Suður-Afríku, og Kim Jong-su, taekwondo-meistari sem kenndi bardagalistir í Suður-Afríku og Mósambík, en er samkvæmt heimildum í raun njósnari. Í fórum þeirra fundust fjögur og hálft kíló af nashyrningshornum og reiðufé að verðmæti rúmlega 12 milljónir króna. Vegabréf mannanna gáfu til kynna að þeir hefðu reglulega ferðast til Mósambík og Namibíu og voru þeir handteknir af lögreglu.

Einungis nokkrum klukkustundum eftir handtökuna, flaug sendiherra Norður-Kóreu í Suður-Afríku, Yong Man-ho, til Mósambík. Mönnunum tveimur var sleppt, eftir að greidd hafði verið rúmlega þriggja og hálfrar milljónar króna sekt. Um klukkustund síðar höfðu þeir yfirgefið landið. Taekwondo-kennarinn Kim, sem ekki nýtur diplómatafriðhelgi eins og samstarfsmaður hans í smyglinu, var aldrei færður til yfirheyrslu, en nokkrum mánuðum eftir atvikið tilkynntu suðurafrísk stjórnvöld að ráðgjafinn, Pak, hefði 30 daga til að yfirgefa landið, ellegar yrði honum bannað að dveljast þar, persona non grata.

Atvikið í Mósambík er langt frá því að vera einsdæmi. Skýrslan hefur eftir ónefndum suðurkóreskum diplómata að nágrannarnir í norðri fari reglulega landleiðina til Mósambík eftir nashyrningshornum og svipaðar ásakanir hafa komið frá mönnum innan suðurafrísku stjórnsýslunnar. Þá er norðurkóreska sendiráðið í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, talið önnur miðstöð útflutnings á smyglvarningi til Kína.

Vinátta Kóreu við Afríkuríki

Samskipti Norður-Kóreu og Afríkuríkja hófust á árum kalda stríðsins, þegar norðurkóresk yfirvöld leituðu bandamanna sem viðurkenndu ráðamenn í Pyongyang sem réttmæt stjórnvöld Kóreuskaga og studdu Norður-Kóreu innan aþjóðasambanda.

Úgöndsku forsetahjónin skála með Park Geun-Hye, forseta Suður-Kóreu.
Úgöndsku forsetahjónin skála með Park Geun-Hye, forseta Suður-Kóreu. AFP

Hin nýju sjálfstæðu ríki Afríku fengu stuðning úr austri, í formi fjármagns og vopna, og spruttu norðurkóresk sendiráð upp í álfunni. Það leið þó ekki á löngu þar til sendiráðin fóru að verða of stór fjárhagsleg byrði fyrir ríkið og um miðjan áttunda áratuginn hófu norðurkóresk sendiráð að fjármagna sig sjálf og er sú staða enn uppi víða, en það gera þau að stórum hluta með smygli.

Háttsettur embættismaður hjá norðurkóreska sendiráðinu í Lusaka í Sambíu, Hyun Sung-il, flúði 1996 og hefur játað að hafa tekið þátt í smygli á fílabeinum, eðalsteinum og nashyrningshornum, sem seld hafi verið til Kína og Miðausturlanda. Þá hafi sendiráðið ekki fengið neitt fjármagn frá heimalandinu og starfsmenn þess hafi þurft að beita öllum tiltækum ráðum til fjáröflunar fyrir sendiráðið – t.a.m. hafi smárúta í eigu sendiráðsins verið gerð út til farþegaraksturs og starfsmenn þess hafi sjálfir þurft að veiða fisk í matinn fyrir veislu á þjóðhátíðardegi landsins. Sendiráðinu var lokað tveimur árum eftir flótta Hyun, ásamt norðurkóreska sendiráðinu í Simbabve.

Norður-Kórea nýtur enn stuðnings margra Afríkuríkja sem landið hefur stutt í gegnum tíðina. Þannig óskuðu Kommúnistaflokkur Suður-Afríku og Afríska þjóðarráðið, sem er ráðandi flokkur í Suður-Afríku, Kim Jong-un til hamingju með endurkjör sitt sem leiðtogi Norður-Kóreu í maí síðastliðnum og sögðust kjósa gegn öllum tillögum að alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gegn Norður-Kóreu.

Hinn aldraði þingforseti, Kim Yong-nam.
Hinn aldraði þingforseti, Kim Yong-nam. Skjáskot/Alchetron

Leifar valdatafls kalda stríðsins finnast enn í baráttu Kóreuríkjanna um stuðning Afríkuríkja. Fyrr í sumar tilkynnti talsmaður Park Geun-hye, foreta Suður-Kóreu, að Úganda hefði slitið öllu hernaðarsambandi við Norður-Kóreu. Kom tilkynningin í kjölfar fundar forsetans suðurkóreska og Yoweri Museveni, forseta Afríkuríkisins.

Úgöndsk stjórnvöld hafa stigið varlega til jarðar í málinu og segja ríkið enn eiga í stjórnmálasambandi við Norður-Kóreu, en endalok hernaðarsambandsins marka endalok samvinnu frá kalda stríðinu. Úganda og Norður-Kórea hafa lengi verið bandamenn og einungis tvö ár eru síðan þingforseti síðarefnda ríkisins heimsótti úgandska forsetann, sem hrósaði norðurkóreskum stjórnvöldum fyrir baráttu sína gegn heimsvaldastefnu Vesturlanda. Hin dvínandi vinátta ríkjanna er því mikill sigur fyrir Suður-Kóreu, sem reynir að fá ríki Afríku til að fylgja þvingunum Sameinuðu þjóðanna gegn alþýðulýðveldinu í norðri.

Norður-Kóreumenn hafa reynt að beita krók á móti bragði og vinna ríki álfunnar á sitt band, með þó nokkrum árangri, en ýmis ríki þar hafa verið treg til að hætta vopnasölusamstarfi við stjórnvöld í Pyongyang. Þannig hélt Kim Yong-nam, hinn nærri níræði þingforseti norðurkóreska þingsins, til Afríku á sama tíma og Park Geun-hye og heimsótti þar níu ríki, en ekkert ríki fékk heimsókn þeirra beggja.

Óvíst er hvort Kim Jong-un sé að reyna að færa út kvíarnar og eignast fleiri afrískar vinaþjóðir eða reyni heldur að halda í þær sem fyrir eru. Utanríkisráðuneyti Suður-Kóreu segir helstu utanríkisstefnu Pyongyang nú vera að einangast ekki algjörlega frá umheiminum. Með því að senda embættismenn í heimsóknir reynir Norður-Kórea að koma í veg fyrir það.

Diplómatafriðhelgin nýtt víða

Diplómatar eru vel í stakk búnir til smygls, vegna þeirra forréttinda sem þeir njóta á grundvelli Vínarsáttmálans um milliríkjasamskipti frá 1961, en tollyfirvöld mega hvorki opna né leggja hald á farangur þeirra. Sáttmálinn kveður á hinn bóginn á um að þeir sem njóti diplómatafriðhelgi, skuli virða lög og reglur þeirra ríkja sem þeir eru staddir í. Þessa reglu virðast diplómatarnir norðurkóresku virða algjörlega að vettugi.

Sendiráð Norður-Kóreu í Stokkhólmi.
Sendiráð Norður-Kóreu í Stokkhólmi. Mynd/Wikipedia

Síðan um miðjan áttunda áratuginn hefur Norður-Kórea stundað skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi, sér í lagi smygl á vopnum, áfengi og tóbaki, auk peningafölsunar. Starfsemin náði hámarki á fyrri hluta níunda áratugarins þegar hungursneyð ríkti í landinu og rík þörf var á auknum tekjum fyrir ríkið.

Snemma komst upp um umfangsmikið smygl starfsmanna norðurkóresku utanríkisþjónustunnar á áfengi, tóbaki og eiturlyfjum á Norðurlöndunum á áttunda áratugnum og varð það til þess að þeim var vísað frá Noregi, Danmörku og Finnlandi. Einungis Svíþjóð á enn í sambandi við Norður-Kóreu og halda ríkin úti sendiráðum í Pyongyang og Stokkhólmi. Fyrir nokkrum árum voru tveir norðurkóreskir diplómatar, sem störfuðu í Rússlandi, handteknir í Svíþjóð, þegar þeir reyndu að flytja 230.000 vindlinga inn í landið. Reyndu þeir að bera fyrir sig diplómatafriðhelgi, en hún náði ekki til Svíþjóðar og tók því lögregla þá fasta, en norðurkóreska sendiráðið í Stokkhólmi neitaði að kannast við mennina.

Smyglið nær víða um heim og t.d. var norðurkóreskur diplómati handtekinn í Bangladess í fyrra, með gull að verðmæti ein milljón Bandaríkjadala, yfir 120 milljónir króna, frá Singapúr, en talið er að nota hafi átt gullið sem greiðslu, þó óvíst sé fyrir hvað. Listinn yfir smygl starfsmanna norðurkóresku utanríkisþjónustunnar er langur og reikna má með því að einungis lítill hluti þeirra hafi nokkrun tíma komist upp. Svo virðist sem ekkert lát sé á þessum athöfnum þeirra, en lítið virðist vera hægt að gera til að koma í veg fyrir þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert