Uppsteytur gegn Trump á fyrsta degi

Frá landsþingi repúblíkana í dag.
Frá landsþingi repúblíkana í dag. AFP

Hópur fulltrúa á landsþingi repúblíkana reyndi að hrinda af stað uppreisn gegn Donald Trump. Á gólfi Quicken Loans-hallarinnar greip um sig fyrirferðarmikill mótþrói í dag þar sem þeir sem mótfallnir eru Trump sem frambjóðanda flokksins kyrjuðu „Roll call vote! Roll call Vote“.

Þar fór hópurinn fram á „nafnakallskosningu“ þar sem hver og einn fulltrúanna 2.472 á þinginu hefði þurft að greiða atkvæði um reglur þingsins sem nauðsynlegt var að samþykkja áður en þingið gæti formlega hafist.

New York Times segir að von hópsins hafi verið að með því að hefja svo langdregið ferli svo síðla dags, aðeins fáeinum klukkutímum áður en aðaldagskrá þingsins átti að hefjast, myndi hann gera Donald Trump hneisu.

Landsþingsfulltrúar sem mótfallnir voru atkvæðagreiðslunni virtust aftur á móti fleiri og þeir kyrjuðu hástöfum „USA! USA!“

Mikil upplausn varð í salnum.
Mikil upplausn varð í salnum. AFP

Nei-in höfðu sigurinn

Eftir nokkrar mínútur af uppnámi í salnum og nokkrum tónlistarinnslögum, ætluðum til að drepa tímann, virtust fulltrúarnir sem andsnúnir eru Trump hafa verið yfirbugaðir. Þegar fundarstjórinn kallaði eftir „raddatkvæðum“ um hvort halda ætti nafnakallskosningu, þar sem viðstaddir sögðu ýmist „já“ eða „nei“, úrskurðaði hann að „nei-in“ hefðu sigurinn.

Samkvæmt New York Times virtust níu ríki upprunalega samþykkja nafnakallskosninguna, en aðeins þarf sjö til að knýja slíka fram samkvæmt reglum flokksins. Starfsfólk flokksstjórnarinnar og kosningaherferðar Trump fór aftur á móti á stúfana og tókst að fá fulltrúa til að draga stuðning sinn til baka. Að lokum samþykktu aðeins sex ríki kosninguna og viðstaddir brustu í söng: „Við viljum Trump! Við viljum Trump!“

Leiðtogar uppreisnarinnar viðurkenndu ósigur sinn.

„Það eru vonbrigði,“ sagði Ken Cuccinelli, fulltrúi frá Virginíu sem skipulagt hafði mótmælin. „Það er enginn staður til að áfrýja“

Mary Fallin, einn fundarstjóra.
Mary Fallin, einn fundarstjóra. AFP

Barnalegir og geðvondir

Á sama tíma hafa stuðningsmenn Trumps gagnrýnt háttsetta repúblíkana sem ekki hyggjast mæta til landsþingsins. Newt Gingrich hefur til að mynda kallað Bush-fjölskylduna barnalega og helsti aðstoðarmaður Trumps, Paul Manafort, hefur sagt ríkisstjóra Ohio, John Kasich, sem bauð sig sjálfur fram til forseta, geðvondan.

George H.W. Bush og George W. Bush, sem báðir eru fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, hafa neitað að styðja Trump. Trump gerði ítrekað grín að Jeb Bush á meðan sá síðarnefndi var enn í framboði til forseta en hann hefur einnig gagnrýnt Bush yngri vegna Íraksstríðsins og hryðjuverkaárásanna 11. september 2001.

Fyrrverandi frambjóðandi flokksins, Mitt Romney, neitaði einnig að mæta til landsþingsins og mun ástæðan vera talsmáti Trumps og viðhorf hans til innflytjendamála.

Fulltrúi frá Illinois, Christian Gramm æpir: nei.
Fulltrúi frá Illinois, Christian Gramm æpir: nei. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert