Börn létust í árás bandamanna

Ungur sýrlenskur drengur í bænum Manbij heldur á miða sem …
Ungur sýrlenskur drengur í bænum Manbij heldur á miða sem á stendur: Viljastyrkur sýrlensku þjóðarinnar mun slíta í sundur keðju hryðjuverka. AFP

Börn voru meðal þeirra 56 óbreyttu borgara sem fórust í loftárás bandamanna, hersveita sem Bandaríkjamenn leiða, í sýrlensku þorpi í dag. Þorpið er á svæði sem vígamenn Ríkis íslams fara með völd á.

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory segja að ellefu börn hafi dáið í árásinni. Tugir eru særðir og margir þeirra eru í lífshættu.

Fólkið sem fórst var á flótta undan átökum í Aleppo-héraði. Svo virðist sem hermennirnir hafi talið það vera vígamenn úr röðum Ríkis íslams. 

Syrian Observatory byggja greiningar sínar á ástandinu á gögnum frá fólki víðs vegar að. Þau segja víst að árásirnar í dag hafi verið gerðar úr lofti.

Herir bandamanna hafa ekki tjáð sig um árásina. Hins vegar segjast þeir vera að rannsaka fréttir af mannfalli.

Þorpið Al-Tukhar er í um 14 km fjarlægð frá bænum Manbij en þar hefur Ríki íslams haldið um valdataumana um hríð. Af þeim sökum er svæðið skotmark bandamanna sem eru  í hernaði gegn hryðjuverkasamtökunum. 

Í gær fórst 21 óbreyttur borgari í Manbij og sex til viðbótar í þorpinu Al-Tukhar.

Manbij er hernaðarlega mikilvægur bær fyrir Ríki íslams því um þetta svæði er fluttur varningur milli Sýrlands og Tyrklands. Það hefur einnig þýtt að bandalag erlendra þjóða, undir forystu Bandaríkjamanna, hefur beint vopnum sínum að svæðinu frá því í lok maí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert