Börnin auðveld bráð í stríði

Meira en tuttugu börn féllu í loftárásum í bænum Manbij í Sýrlandi í þessari viku. Þá var tólf ára drengur afhöfðaður af uppreisnarmönnum fyrir framan myndavélar í borginni Aleppo.

Rúmlega 4,8 milljónir Sýrlendinga hafa flúið landið og 6,5 milljónir til viðbótar eru á flótta innan landamæra þess. Helmingur þeirra eru börn. 

Frá því að stríðið í Sýrlandi braust út í mars árið 2011 telja mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights að 386 þúsund manns hafi dáið. Af þeim eru að minnsta kosti 14 þúsund börn. Dánartíðnin hefur aukist frá því að erlendir herir, m.a. frá Rússlandi, Bandaríkjunum og Evrópulöndum, hófu þátttöku í stríðinu. Þungi hefur því færst í átökin, m.a. í kjölfar hryðjuverkaárása í Frakklandi. Þarlend yfirvöld hafa heitið því að ráðast að rótum hryðjuverkanna. Skotmörkin eru flest í Sýrlandi.

Milljónirnar sem hafa flúið landið eru flestar í nágrannaríkjunum Jórdaníu, Líbanon og Tyrklandi. Aðeins um 10% flóttamannanna hafa leitað skjóls í Evrópu. Aðstæður þeirra eru víða mjög slæmar og framtíðin dapurleg.

Aðstæður þeirra sem enn eru í Sýrlandi eru enn verri. Þar býr fólk við stöðuga hættu. Flest börnin ganga ekki í skóla. Kynslóð ómenntaðs fólks er því að vaxa úr grasi í landinu. Þá eru aðrir innviðir samfélagsins í molum, s.s. heilbrigðiskerfið. Vannæring er því orðin stórt vandamál og einnig skortur á bólusetningum og almennri grunnheilsugæslu.

Börnin sem dóu í loftárásum í bænum Manbij eru talin hafa verið tekin í misgripum fyrir vígamenn Ríkis íslams. Þau voru á flótta frá þorpinu al-Tukhar ásamt fjölskyldum sínum er loftárásir bandamanna, sem Bandaríkjamenn leiða, voru gerðar. Nú hafa Bandaríkjamenn gefið vígamönnum Ríkis íslams tveggja sólarhringa frest til að fara frá Manbij sem hefur verið á þeirra valdi um hríð. Hvað gerist ef þeir gangast ekki við þeim kröfum kemur ekki fram í yfirlýsingunni. Segja Bandaríkjamenn þetta gert til að „vernda líf óbreyttra borgara“. 

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, telur að enn séu um 35 þúsund börn í og við Manbij og komist hvergi. Síðustu sex vikur hefur ofbeldið stóraukist og er talið að 2.300 manns hafi fallið í átökum á svæðinu. Þeirra á meðal tugir barna. Aðstæður þeirra eru hrikalegar. Þau hafa ekki frelsi til að leika sér, þau eru hrætt um líf sitt og ættingja sinna og þau vita svo mörg hver ekki hvenær þau fá næst að borða. Í þessum aðstæðum verða þau auðveld bráð stríðandi fylkinga. 

Þetta er sá veruleiki sem milljónir barna í Sýrlandi búa við og hafa búið við í fimm ár. 

UNICEF hvetur stríðandi fylkingar í landinu til að virða alþjóðalög og hlífa börnum í stríði sínu. „Hvar sem þeir eru staddir í Sýrlandi og sama við hvaða aðstæður þeir þurfa að búa - ekkert réttlætir árásir á börn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert