Árásarmennirnir ganga lausir - sex látnir

Lögregla við útgang að neðanjarðarlestarstöð í nágrenni verslunarmiðstöðvarinnar.
Lögregla við útgang að neðanjarðarlestarstöð í nágrenni verslunarmiðstöðvarinnar. AFP

Framin var skotárás í verslunarmiðstöð í München í dag og eru árásarmennirnir enn á flótta. Að minnsta kosti sex eru látnir. Í fyrstu var talið að önnur árás hefði átt sér stað á Karlsplatz á sama tíma en tilkynningar þess efnis reyndust ekki á rökum reistar. Árásarmennirnir ganga enn lausir.

Fréttin verður ekki uppfærð frekar en nýjar fréttir um málið má finna hér til vinstri.

Fyrstu fregnir 16:50

Nokkrir eru látnir eða særðir eftir að skotárás var gerð í verslunarmiðstöðinni Olympia í München í Þýskalandi. Þetta hefur verið staðfest af lögreglu samkvæmt þýska miðlinum Süddeutsche Zeitung sem greinir frá því að líklega sé um einn árásarmann að ræða. AFP segir að einn sé látinn og 10 særðir.

Fregnir herma að svæðið í kring um verslunarmiðstöðina í Moosach-héraði hafi verið lokað af en atvikalýsingar eru nokkuð á reiki. CNN hefur þó eftir lögreglunni að árásinni sé lokið. 

Talað er um einn árásarmann. Sagt er að þyrlur sveimi yfir vettvanginum og starfsfólk sitji fast inni í verslunum. Lögregluyfirvöld í München hafa beðið fólk að forðast svæðið. RT vitnar í þýska miðla sem segja árásarmanninn enn ganga lausan.

Öryggissveitir hafa verið í viðbragðsstöðu eftir að ungur maður stakk fimm í lest í Bæjaralandi á mánudag. Yfirvöld hafa varað við að frekari árásir kunni að vera yfirvofandi.

Uppfært 17:24

Süddeutsche Zeitung segir lögreglu einnig hafa lokað Karlsplatz - sem einnig er kallað Stachus-torg - í miðborg München. BBC greinir nú frá því að önnur skotárás hafi átt sér stað þar.

Lögregla hefur beðið fólk að forðast alfarið almenningsstaði í München, ástandið sé enn óljóst. Samkvæmt Sky News telur lögregla að um fleiri en einn árásarmann sé að ræða. Allar almenningssamgöngur liggja nú niðri í borginni.

Uppfært 17:55

Lögreglan staðfestir á Twitter að árásarmennirnir ganga enn lausir og lögregla veit ekki hvar þeir eru niðurkomnir. Ítrekar hún að almenningur haldi sig inni.

Samkvæmt BBC hefur lögreglan hins vegar gefið út yfirlýsingu um að tilkynningar um árás við Karlsplatz hafi ekki reynst á rökum reistar.

Uppfært 18:06

Innanríkisráðuneyti Bæjaralands staðfestir að þrír hafi látist í árásinni. Lögreglan hefur gefið út yfirlýsingu á Facebook þar sem greint er frá því að vitni hafi séð þrjá aðila með skotvopn. Heildarfjöldi fórnarlamba er óljós sem stendur. Enginn gerningsmannanna hefur verið handtekinn og leitin að þeim stendur enn yfir.

Á Twitter greinir lögreglan frá frekari óstaðfestum fregnum af ofbeldi og hugsanlegum skotum í miðborg München og ítrekar bón sína um að fólk haldi sig innandyra. Þá er almenningur beðinn að birta ekki myndir af aðgerðum lögreglu á netinu, slíkt geti hjálpað árásarmönnunum.

Uppfært 18:50

AFP og BBC segja lögreglu hafa staðfest að sex séu látnir.

Yfirvöld í Munchen hafa lýst yfir neyðarástandií gegnum snjallsímaapp borgarinnar. Eru íbúar beðnir um að fylgjast með fréttum og halda sig innandyra.

Uppfært 19:22

AFP hefur eftir lögreglu að talið sé að um hryðjuverk sé að ræða þó hvatinn að baki sé enn óljós. Fregnir af árásum á öðrum stöðum í borginni hafa komið upp á Twitter en lögreglan segist ekki geta staðfest þær.

Frá vettavangi við Olympia.
Frá vettavangi við Olympia. AFP

Fréttin verður uppfærð eftir því sem frekari upplýsingar berast.

Lögregla við Olympia.
Lögregla við Olympia. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert