Enn í dái eftir axarárás í Þýskalandi

17 ára maður réðst á farþega í lest í Þýskalandi …
17 ára maður réðst á farþega í lest í Þýskalandi vopnaður öxi á mánudagskvöldið. Hann var skotinn til bana af lögreglu. AFP

Annar mannanna frá Hong Kong sem varð fyrir axarárásinni í lest í Þýskalandi á mánudagskvöld er enn í dái á háskólasjúkrahúsi í þýsku borginni Würzburg. Hinn maðurinn frá Hong Kong er ekki lengur í lífshættu samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu.

Mennirnir tveir hlutu alvarlegustu áverkana af þeim sem urðu fyrir árásinni en um er að ræða 62 ára mann og þrítugan tengdason hans.

Í tilkynningu sem sjúkrahúsið sendi frá sér í morgun segir að fjórir af fimm sem urðu fyrir árásinni séu enn undir læknishöndum á sjúkrahúsinu en ástand þeirra allra hefur batnað og er orðið stöðugra. „Hins vegar er einn sjúklingur enn þungt haldinn og honum er haldið sofandi,“ segir í tilkynningunni.

Ríki íslams lýsti á þriðjudag yfir ábyrgð á árásinni og birti myndband af árásarmanninum þar sem hann sagðist ætla að framkvæma „aðgerð“ í Þýskalandi og lýsti sér sem bardagamanni kalífatsins.

Þýsk yfirvöld vinna nú að því að komast að því hvort árásarmaðurinn, 17 ára hælisleitandi sem var skotinn til bana af lögreglunni, sé frá Afganistan líkt og fram kom í hælisumsókn hans, eða frá Pakistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert