Fá liðsauka frá Austurríki

Lögregla við rýmingu á verslunarmiðstöðinni í Munchen þar sem árásin …
Lögregla við rýmingu á verslunarmiðstöðinni í Munchen þar sem árásin átti sér stað fyrr í dag. AFP

Þýska götublaðið Bild segir að liðsauki sé á leiðinni til München frá lögreglunni í Austurríki vegna skotárásar við verslunarmiðstöð í borginni í dag. Í það minnsta sex eru látnir og óljóst er hversu margir eru særðir í heildina. Lögregla leitar nú þriggja manna sem taldir eru hafa staðið að árásinni og ganga nú lausir.

Talið er að um hryðjuverk sé að ræða, þó að hvatinn að baki árásinni sé óljós, en talsmaður lögreglu segir ekkert gefa til kynna að hún tengist samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki og biður fólk um að draga engar ályktanir.

Samkvæmt Bild eru allar tiltækar öryggissveitir í Bæjaralandi, sem og í Hessen og Baden-Wuerttemberg á leið til borgarinnar.

Lokað hefur verið fyrir allar almenningssamgöngur og leigubílstjórar beðnir um að taka ekki farþega. Þá hefur almenningur verið beðinn um að halda sig innandyra á meðan óvissuástand ríkir í borginni.

Aðalbrautarstöðin í München var rýmd fyrir nokkru og eru fjölmargir ferðalangar strand í borginni. Íbúar bjóða vegfarendum örugg rými með myllumerkinu #offenetuer sem þýðir opnar dyr.

Fjölmargir eru strandaglópar í Munchen þar sem lestarsamgöngur til og …
Fjölmargir eru strandaglópar í Munchen þar sem lestarsamgöngur til og frá borginni hafa verið lagðar niður. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert