Telja Þýskaland skotmark hryðjuverka

Lögreglumenn í Berlín.
Lögreglumenn í Berlín. AFP

Meira en þrír fjórðu Þjóðverja telja að landið þeirra verði bráðlega skotmark hryðjuverkamanna, samkvæmt nýrri skoðanakönnun þar í landi. Könnunin var gerð í kjölfar þess að sautján ára hælisleitandi réðst með öxi og hníf að farþegum um borð í lest við Würzburg fyrr í vikunni.

77% aðspurða sögðust búast við að árás yrði gerð á landið bráðlega. Hlutfallið var 69% fyrir tveimur vikum.

Forschungsgruppe Wahlen gerði könnunina fyrir fjölmiðillinn ZDF.

Lögreglan í Bæjaralandi skaut unglinginn til bana eftir að hann særði fjóra ferðamenn frá Hong Kong.

Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði að rannsókn málsins benti til þess að árásarmaðurinn hefði verið einn að verki. Hann hafði snúist til íslamskrar öfgafstefnu en heimagerður fáni hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams fannst í herbergi hans. 

Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, sagði í samtali við þýska dagblaðið Bild í dag að engin ástæða væri fyrir Þjóðverja til þess að missa stjórn á sér af hræðslu. Þó væri ljóst að Þýskaland væri hugsanlegt skotmark hryðjuverkahópa.

Aðeins 20% aðspurðra sögðust ekki búast við því að hryðjuverkaárás yrði gerði í landinu á næstu misserum.

59% sögðust jafnframt telja að þýsk stjórnvöld hefðu gert nóg til þess að verja sig fyrir hryðjuverkum, að því er segir í frétt Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert