Augljós tengsl milli Sonbolys og Breiviks

AFP

Hubertus Andrae, lögreglustjóri í München, segir að „augljós“ tengsl séu á milli skotárásarinnar í borginni í gær og hryðjuverkaárása Anders Behring Breiviks í Ósló og Útey fyrir fimm árum.

Í gær voru fimm ár síðan Breivik myrti 77 manns í mannskæðustu hryðjuverkum í sögu Noregs. Átta manns létu lífið í sprengjuárás Breiviks á stjórnarráðsbyggingarnar í miðbæ Óslóar en sjálfur skaut hann 69 manns til bana í Útey, þar sem ungliðar norska Verkmannaflokksins voru við sumardvöl.

Hinn átján ára Ali David Sonboly skaut níu manns til bana í þýsku borginni í gær, áður en hann tók sitt eigið líf.

Andrae sagði á blaðamannafundi í dag að Sonboly hefði haft fjöldamorð „á heilanum“. Þó er ekki talið að hann hafi tengst skipulögðum hryðjuverkasamtökum. Telur lögreglan að hann hafi verið einn að verki.

Lögreglustjórinn sagði ljóst að Breivik, og þaulskipulagðar árásir hans, hefðu veitt Sonboly innblástur. Á heimili Sonbolys fundust bækur og ýmis gögn um fjöldamorð og skotárásir, þar á meðal bókin Amok in Kopf: warum schuler töten sem fjallar um ástæðurnar fyrir því að nemendur ákveða að drepa aðra.

Þá greindi lögreglustjórinn frá því að Sonboly hefði verið strítt í skóla og þjáðst af þunglyndi. Hann hefði leitað sér aðstoðar vegna þess og meðal annars gengist undir læknismeðferð.

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert