„Ég lifi eins og í martröð“

Naim Zabergja ræðir við fjölmiðla og heldur á mynd af …
Naim Zabergja ræðir við fjölmiðla og heldur á mynd af syni sínum Dijamant. AFP

4.310 símtöl bárust neyðarlínu frá því skotárásin í München hófst um klukkan sex um kvöld til miðnættis í gær. Níu hafa látist, 27 eru særðir og þar af eru 10 alvarlega særðir að sögn lögreglu. Meðal þeirra sem eru í lífshættu er 13 ára drengur. Öll fórnarlömbin eru íbúar svæðisins, engir ferðamenn eru þeirra á meðal.

Hinir látnu eru á aldrinum 13 til 45 ára, þar af þrjár konur og sjö karlar ef árásarmaðurinn er talinn með.

Þrjú fórnarlambanna voru frá Kosóvó. Faðir eins þeirra, Dijamant Zabergja sem var 21 árs gamall, kom að vettvangi í dag með mynd af syni sínum og ræddi við fjölmiðla. Hin fórnarlömbin tvö voru ungar konur, Armela Segashi og Sabina Sulaj.

 Faðir Zaberjga, Naim, sagðist „lifa eins og í martröð“.

„Hann var með vini sínum. Vinur hans hringdi í mig og sagði að þeir hefðu keypt sér drykki og vildu sitja úti. Árásarmaðurinn var bara tveimur metrum frá þeim. Hann byrjaði að skjóta. Vininum tókst að flýja en sonur minn var skotinn til bana,“ sagði Naim Zabergja. „Ég trúi enn ekki að þetta hafi gerst.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert