Framlengja neyðarlög ef þörf krefur

AFP

Binali Yldirim, forsætisráðherra Tyrklands, segir að tyrknesk stjórnvöld hafi ekki í hyggju að framlengja neyðarlögin, sem tóku gildi í landinu á miðvikudag, en það verði þó gert ef nauðsyn krefur.

Neyðarlögin, sem veita tyrkneskum stjórnvöldum ríkar heimildir til þess að grípa til aðgerða gegn þeim sem tóku þátt í valdaránstilrauninni í síðustu viku, eiga að gilda í þrjá mánuði.

„Markmiðið okkar er að framlengja þau ekki, en ef þörf krefur verða þau að sjálfsögðu framlengd,“ sagði forsætisráðherrann í samtali við tyrkneska sjónvarpsstöð í kvöld.

Evrópusambandið hefur lýst yfir áhyggjum af neyðarlögunum, en leiðtogar þess krefjast þess að tyrknesk stjórnvöld virði lög og mannréttindi borgaranna.

Neyðarlögin gera það meðal annars að verkum að þingið missir völd sín að mestu leyti, enda getur Recep Tayyip Erdogan, forseti landsins, nú sett ný lög án tilkomu þess. Auk þess geta tyrknesk stjórnvöld takmarkað borgaraleg réttindi eftir þörfum.

Fyrr í dag framlengdi Erdogan heimild lögreglunnar til þess að halda grunuðum brotamönnum í haldi án ákæru, úr einni viku í þrjátíu daga.

Auk þess fyrirskipaði hann að yfir eitt þúsund einkaskólum yrði lokað og yfir 1.200 félagasamtök yrðu lögð niður.

Að minnsta kosti sextíu þúsund opinberir starfsmenn í Tyrklandi hafa annaðhvort verið handteknir eða reknir úr starfi eftir að valdaránstilraunin var brotin á bak aftur. Eru þeir grunaðir um að styðja tyrkneska klerkinn Fethullah Gulen, sem Erdogan sakar um að hafa staðið að baki tilrauninni.

Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt þessar pólitísku hreinsanir Erdogans.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert