„Leiðinlegur“ meðframbjóðandi

Tim Kaine segist sjálfur vera leiðinlegur.
Tim Kaine segist sjálfur vera leiðinlegur. AFP

Tim Kaine, öldungadeildarþingmaður fyrir Virginíu, var í nótt kynntur sem varaforsetaefni Hillary Clinton í forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem fara fram í nóvember. 

Kaine fæddist í Minnesota 1958 og er elstur þriggja bræðra. Faðir hans var járnsmiður af skoskum og írskum uppruna og móðir hans af írskum. Er hann kaþólikki líkt og foreldrar hans og hefur víðtæka reynslu af stjórnmálum vestanhafs.

Lögfræðingur með mikla reynslu 

Tim Kaine ólst upp í Kansas-borg og lauk BA-gráðu í hagfræði frá háskólanum í Missouri 1979. Þaðan hélt hann í laganám við Harvard, en tók sér hlé frá námi 1980-1981 og tók þátt í sjálfboðastarfi jesúíta í Hondúras, þar sem trúboðar ráku kaþólskan skóla. 1983 lauk hann síðan laganámi og hóf störf sem lögmaður í Virginíu ári síðar.

Næstu 17 ár starfaði Kaine sem lögmaður á sviði húsnæðisréttar í Richmond í Virginíu. Hann gerðist síðan aðjúnkt við lagaskóla í Richmond, þar sem hann kenndi siðfræði, áður en hann var kjörinn í borgarsjórn Richmond 1994, þar sem hann tók við embætti borgarstjóra fjórum árum síðar. 2001 bauð hann sig fram til vararíkisstjóra í Virginíu fyrir demókrata og hlaut 50,35% atkvæða, sem dugði til og tók hann við embætti ári síðar. Fjórum árum síðar bauð hann sig síðan fram til ríkisstjóra og sigraði enn. Gegndi hann því embætti í eitt kjörtímabil, til 2010.

Eftir að Kaine hætti sem ríkisstjóri sat hann í landsnefnd demókrata, auk þess sem hann kenndi við Háskólann í Richmond. 2011 tilkynnti hann síðan að hann hygðist bjóða sig fram til öldungadeildar Bandaríkjaþings og 2012 náði hann kjöri. Ári síðar settist hann á þing, þar sem hann situr enn.

Fyrir forsetakosningarnar 2008 var Kaine talinn líklegt varaforsetaefni Baracks Obama, þar sem hann var vinsæll ríkisstjóri í einu suðurríkjanna og því talinn geta hjálpað Obama við að ná kjöri. Var Kaine fyrsti ríkiskjörni fulltrúi demókrata utan Illinois, heimaríkis Obama, til að lýsa yfir stuðningi við hann, en sá síðarnefndi hafði stutt Kaine í baráttu sinni um ríkisstjórastólinn.

AFP

Andvígur dauðarefsingum og vill herða byssulöggjöf

Tim Kaine er skoðanabróðir meðframbjóðanda síns í flestum málum. Hefur hann látið jafnrétti kynjanna sig varða og studdi frumvarp sem eykur rétt fólks til að kæra kynbundinn launamun á vinnustöðum. Nýverið ítrekaði hann síðan stuðning sinn við niður­stöðuna í máli Roe gegn Wade, en dóm­ur­inn tryggði banda­rísk­um kon­um rétt­inn til fóst­ur­eyðinga. Sjálfur hefur hann þó sagst vera persónulega andvígur fóstureyðingum, en styður rétt kvenna til ákvarðanatöku í þeim málum.

Einnig styður Kaine rétt samkynhneigðra til giftinga og ættleiðinga, auk þess sem hann hefur höfðað til innflytjenda, en Kaine talar reiprennandi spænsku og 2013 varð hann fyrsti bandaríski þingmaðurinn til að halda ræðu á spænsku á þinginu þar í landi.

Þá er hann andvígur dauðarefsingum, en heimilaði þó 11 aftökur í Virginíu í embætti ríkisstjóra. Hefur hann sagt dauðarefsinguna sér erfiða; hann sé á móti henni, en hafi svarið eið við embættistöku og verði því að verja hana. Sem ríkisstjóri mildaði hann eina dauðarefsingu í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Sem lögmaður á sviði húsnæðisréttar beitti hann sér fyrir hag þeirra sem minna mega sín, þar sem skjólastæðingar hans voru helst þeir sem var mismunað á grundvelli húðlitar eða fötlunar. Líkt og Clinton styður Kaine herta byssulöggjöf, til að mynda með bakgrunnsskoðun kaupenda og hömlum á sölu á stærri vopnum.

AFP

Segist leiðinlegur

Í nýlegu viðtali á NBC-sjónvarpsstöðinni, sagði Kaine sjálfan sig einfaldlega vera leiðinlegan (e. boring), en leiðinlegir væru sá þjóðfélagshópur sem stækkaði hvað örast í Bandaríkjunum. Sem jarðbundinn og rólegur gæti hann haft neikvæð áhrif á kosningabaráttu þeirra Clinton, en frambjóðendur hafa oft kosið varaforsetaefni sem ræðst óhikað á andstæðinginn, nokkuð sem Kaine er ólíklegur til að gera af hörku.

Valið á honum þykir þó vera einna öruggast af þeim sem voru taldir líklegastir, en líkt og Clinton hefur sjálf bent á hefur Kaine aldrei tapað kosningum. Þá er hann frá Virginíu, sem er mikilvægt ríki í baráttunni um forsetaembættið. Hann hefur vítæka reynslu af opinberum störfum, sem borgarstjóri, vararíkisstjóri, ríkisstjóri og öldungadeildarþingmaður, og þykir sjóaður í bæði inn­an- og ut­an­rík­is­mál­um og hef­ur átt sæti í hernaðar- og ut­an­rík­is­mála­nefndum öld­unga­deild­ar­inn­ar, auk fjár­laga­nefnd­ar­inn­ar.

Hugsanlegt er að Kaine nái að höfða til óákveðinna kjósenda og karlmanna, auk framsækinna kjósenda, en hann er frjálslyndur í skoðunum.

Helst hefur hann verið gagnrýndur fyrir gjafir sem hann þáði í embætti vararíkisstjóra og ríkisstjóra, en þar á meðal var orlofsferð í Karíbahafið að verðmæti 18.000 Bandaríkjadala, rúmra tveggja milljóna íslenskra króna, sem fjárfestir í ríkinu gaf. Heildarverðmæti gjafa sem Kaine hefur tekið við í embætti er 160.000 Bandaríkjadalir, tæpar 20 milljónir króna. Talsmaður hans hefur varið viðtöku gjafanna og segir Kaine aldrei hafa haldið þeim leyndum.

Þá gæti reynst ókostur að Kaine er ólíklegur til að höfða til demókrata sem studdu Bernie Sanders í forvali flokksins. Til að mynda hefur hann stutt fríverslunarsamning milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sem hefur þótt umdeildur og Sanders hefur talað mikið gegn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert