Lokkaði fólk á McDonald's

Árásin hófst á McDonald's utan við verlunarmiðstöðina.
Árásin hófst á McDonald's utan við verlunarmiðstöðina. AFP

Táningurinn sem myrti níu og særði 27 í skotárás í München í gær virðist hafa brotist inn á facebookaðgang ungrar konu og birt færslu til að lokka fólk á árásarstaðinn.

Þetta staðfestir rannsóknarlögreglufulltrúinn Robert Heimberger ísamkvæmt fréttastofu AP.

Árásarmaðurinn birti færslu á vegg konunnar um að facebookvinir hennar gætu komið á McDonald's staðinn við Olympia-verslunarmiðstöðina klukkan 16 að staðartíma og fengið ókeypis vörur.

„Ég skal gefa ykkur eitthvað ef þið viljið, en ekkert of dýrt,“ stóð í færslunni.

Heimberger segir að svo virðist sem færslan hafi verið undirbúin af hinum grunaða og svo sett inn.

Stuttu eftir tilkynnti konan að brotist hefði verið inn á facebookreikning hennar.

Ekki kemur fram í frétt AP hvort eitthvert fórnarlambanna hafi verið á staðnum vegna færslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert