Ruðningsleikmaður stöðvaði nauðgun

Frá Gainesville í Flórída.
Frá Gainesville í Flórída. Ljósmynd/Wikipedia

Lögreglan í Flórída í Bandaríkjunum segir ruðningsleikmann hafa náð að koma í veg fyrir nauðgun sem hann varð vitni að fyrir utan bar í bænum Gainesville á fimmtudag. Stúlkan var meðvitundarlaus þegar henni var nauðgað eftir að hafa verið byrlað nauðgunarlyf.

Fréttastofa Fox greinir frá málinu en þar segir að Cristian Garcia, sem spilar fyrir háskólalið Háskólans í Flórída, hafi verið að fara út með ruslið á bar þar sem hann starfar sem dyravörður, þegar hann varð vitni að nauðguninni.

Í fyrstu hélt Garcia að kynlífið væri með samþykki beggja aðila en fljótlega tók hann eftir því að stúlkan var meðvitundarlaus. Sagði Garcia í samtali við fréttamiðil í bænum að vinir nauðgarans hefðu fylgst með árásinni og ekki aðhafst nokkurn skapaðan hlut.

Gekk þá Garcia ásamt öðrum dyraverði staðarins upp að manninum og stöðvaði hann. „Stúlkan var í rauninni meðvitundarlaus svo ég vissi að hún hefði ekki gefið samþykki,“ sagði Garcia. Hann greip í öxlina á nauðgaranum. „Ég sagði farðu af henni, en hann sagði mér að skipta mér ekki af þessu. Ég tók þá aftur í öxlina á honum og hann fór af henni.“

Nauðgarinn varð reiður og sýndi af sér ógnandi tilburði við Garcia. Á endanum hljóp nauðgarinn í burtu frá dyravörðunum en lögreglu tókst að hafa uppi á manninum sem er 34 ára að aldri.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var tekið myndband af nauðgaranum, sem hjálpaði til við að hafa uppi á honum. Eins greindi lögregla frá því að stúlkan, sem er 19 ára, hafi sagt við rannsakendur á sjúkrahúsi eftir árásina að hún hafi ekki þekkt nauðgarann. Hún hafi reynt að ýta honum af sér en hún missti sífellt meiri meðvitund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert