Skyndiflóð leggja heimili í rúst

Frá götu í Peking á fimmtudag.
Frá götu í Peking á fimmtudag. AFP

Sjötíu og átta manns hafa látist í skyndilegum flóðum í Norður- og Mið-Kína en fleiri tuga er saknað.

Frá þessu greinir BBC sem segir flóðin og aurskriður hafa lagt þúsundir heimila í rúst og valdið umfangsmiklum skemmdum á ræktarlöndum.

Sextán milljónir hafa neyðst til að flýja heimili sín. Kínversk yfirvöld hafa sagst munu sjá svæðum sem orðið hafa illa úti fyrir fjármagni.

Flest nýlegustu dauðsfallanna hafa átt sér stað í Hebei-sýslu, norðan til í landinu, þar sem hátt í 50 þúsund heimili hrundu saman vegna flóðanna sem höfðu áhrif á yfir átta milljónir manna. Rafmagn hefur slegið út víða og stórfelld vandamál hafa komið upp tengd samskipta- og samgöngukerfum.

Í Henan-sýslu í miðju landinu létust 15 manns í þrumuveðri. Um 18 þúsund hús skemmdust og 7,2 milljónir þurftu að flýja heimili sín. Reiðir íbúar hafa kennt yfirvöldum á svæðinu um skaðann og segja þau hafa brugðist þegar kom að viðvörunum vegna veðursins.

Rignt hefur sérlega mikð í Kína þetta sumarið og ríkisstjórnin segir að yfir 200 manns hafi látist af völdum veðursins. Metið er að yfir 1,5 milljónir hektara af uppskeru hafi skemmst og að beint efnahagslegt tap nemi yfir þremur milljörðum Bandaríkjadala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert