„Ég stend styrkum fótum“

Melania Trump.
Melania Trump. AFP

Melania Trump hafði ekki verið mikið í sviðsljósi fjölmiðla í tengslum við forsetaframboð eiginmanns síns, Donalds Trumps, þegar hún steig fram á sjónarsviðið á landsþingi repúblíkana mánudaginn var. Landsþingið er oft tilefni til að varpa ljósi á maka frambjóðenda, varaforsetaefni og ýmsar vonarstjörnur innan flokkanna – eitt af fáum tilefnum sem gefast til að baða forsetaframboð „ómengaðri jákvæðri fjölmiðlaumfjöllun“, eins og blaðamaður BBC komst að orði. Þetta hefur tekist miður vel hjá repúblíkönum í ár, ekki síst vegna umfjöllunar fjölmiðla um ræðu Melaniu, sem sagt er að hafi verið stolið að stórum hluta frá núverandi forsetafrú, Michelle Obama. Við fyrstu hlustun dettur manni ritstuldur óneitanlega í hug, en báðar minnast þær á uppeldi sitt, gildi sín og eiginmanns síns og mikilvægi þess að miðla þessum gildum til komandi kynslóða með mjög keimlíkum hætti.

Frá Júgóslavíu til New York

En hver er Melania Trump? Fjölmiðlar vestanhafs hafa gert því skóna að feimni hennar við sviðsljósið stafi meðal annars af sterkum austur-evrópskum hreim hennar, en eiginmaður hennar hefur, eins og kunnugt er, látið ýmislegt misjafnt flakka um innflytjendur í kosningabaráttu sinni.

Ef Trump yrði kjörinn forseti væri Melania önnur forsetafrúin í sögu Bandaríkjanna sem ekki fæddist þar í landi, en Melania fæddist og ólst upp í Júgóslavíu undir hæl Sovétríkjanna. Engu að síður styður hún harða stefnu eiginmanns síns í innflytjendamálum og segir hann til að mynda ekki hafa móðgað Mexíkóa með orðræðu sinni.

Sat fyrir nakin í einkaþotu

Melania Trump annast hönnun og fleira í tengslum við skartgripalínu sína, Melania Timepieces and Jewelry, auk þess sem hún lýsir sér sem „móður í fullu starfi“. Hún nam arkitektúr og hönnun í Ljubljana – heimildum ber ekki saman um hvort hún hafi lokið náminu – og fluttist til New York-borgar árið 1996 en starfaði þá sem fyrirsæta.

Auk þess sem hún yrði fyrsta erlenda forsetafrú Bandaríkjanna í langan tíma, altént sú fyrsta sem fæddist í kommúnísku ríki, yrði hún einnig sú fyrsta sem setið hefur fyrir nakin. Það gerði hún árið 2000 fyrir tímaritið GQ, þar sem mátti meðal annars sjá hana liggjandi og hlekkjaða við skjalatösku um borð í einkaþotu Donalds Trumps, sem þá var kærastinn hennar og nýlega búinn að stofna fyrirtækið Trump Model Management. Ritstjóri GQ viðurkennir að myndin hafi ekki verið dæmigerð fyrir tímaritið og sagði það hafa „komið á óvart“ að Melania hafi sagt já við verkefninu, samkvæmt heimildum The Week.

Þá hefur Melania setið fyrir í tímaritum á borð við Vogue, Vanity Fair, New York Magazine, Sports Illustrated og fleirum, en hún fór fyrst á samning sem fyrirsæta hjá fyrirtæki í Mílanó aðeins átján ára gömul.

Melania og Donald Trump.
Melania og Donald Trump. AFP

Ekki nógu „forsetalegur“

Enda þótt Melania tali alla jafna vel um eiginmann sinn, segist vera stolt af honum og að ást hans á Bandaríkjunum hafi skinið í gegn allt frá því þau börðu hvort annað augum í fyrsta sinn, er eitt og annað í fari Donalds sem hún bendir á að betur mætti fara.

Þar segir hún einna helst að maður hennar mætti vera „forsetalegri“ til fara, hafði Donald sjálfur eftir henni á fjöldafundi, og að hann mætti sína meiri yfirvegun á samfélagsmiðlinum Twitter, sagði hún í viðtali við NBC, en Trump er þekktur fyrir að vera óheflaður í tístum sínum um allt milli himins og jarðar.

„Ég er ekki sammála öllu sem hann segir en það er eðlilegt,“ sagði Melania í samtali við CNN á dögunum. Hún hikar að eigin sögn ekki við að ráðleggja eiginmanni sínum um framboðið. „Ég segi honum hvað mér finnst. Ég stend styrkum fótum. Ég er minn eigin einstaklingur. Og ég held að það sé mjög mikilvægt í sambandi.“

Vitaskuld mætti skrifa heila ritgerð um Melaniu Trump og dáðir hennar. Ef hún myndi flytja í Hvíta húsið myndu Bandaríkin til að mynda eignast fimmtyngda forsetafrú, en hún er sögð jafnvíg á ensku, slóvensku, frönsku, serbnesku og þýsku. Hún er sögð þokkafull, gáfuð, vel til fara og sjarmerandi og haft er eftir sumum að hún sé jafnvel „ófær um að vera kvikindisleg“.

Móðir í fullu starfi

Melania Trump hefur lýst sjálfri sér sem „móður í fullu starfi“ en þau Donald eiga saman níu ára drenginn Barron William Trump. Melania segir Barron minna um margt á föður sinn, til dæmis með „dýrum smekk“ sínum á jakkafötum, þyrlum og flugvélum og á til að kalla hann „litla Donald“. Þó svo að hún sé virkari í uppeldishlutverkinu segir hún fjölskylduna njóta samveru og að Donald sýni mikla ást á syni sínum. Þá á Donald fjögur börn úr fyrri hjónaböndum.
AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert