Forsætisráðherra Nepal segir af sér

K.P. Sharma Oli hefur sagt af sér sem forsætisráðherra.
K.P. Sharma Oli hefur sagt af sér sem forsætisráðherra. AFP

K.P. Sharma Oli, forsætisráðherra Nepal, tilkynnti í morgun um afsögn sína, rétt áður en ganga átti til atkvæða um vantrauststillögu gegn honum. Talið var líklegt að vantrauststillagan yrði samþykkt.

„Ég hef ákveðið að stíga til hliðar þannig að hægt sé að kjósa nýjan forsætisráðherra á þinginu og hef ég tilkynnt forsetanum um afsögn mína,“ sagði Oli við þingmenn skömmu áður en atkvæðagreiðsla um vantrauststillöguna hófst.

Ríkisstjórn Oli hafði misst meirihluta á þinginu eftir að kommúnistaflokkur Nepal sagði sig úr stjórnarsamstarfinu fyrir hálfum mánuði. Þegar Oli neitaði að segja af sér lögðu stjórnarandstöðuflokkarnir fram vantrauststillögu.

Eftir umræður á þinginu í gær ákváðu tveir aðrir stjórnarflokkar að draga stuðning sinn við stjórnarsamstarfið til baka. Sagði Ram Janam Chaudhary úr MJF-D-flokki landsins að flokkur hans væri lýðræðissinnaður. „Við teljum ekki rétt að styðja hann eftir að stærsti flokkurinn í stjórnarsamstarfinu sagði sig úr því,“ sagði hann í samtali við AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert