Miklir skógareldar í Kaliforníu

AFP

Hundruð manna hafa neyðst til að yfirgefa heimili sína í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum vegna mikilla skógarelda sem þar geisa.

Í nótt náðu eldarnir yfir um 20 þúsund ekrur, en þeir loga við fjöllin norður af borginni Los Angeles, að sögn yfirvalda.

Um 300 manns hafa þurft að flýja heimkynni sín í grennd við borgina Santa Clarita.

Öllum almenningssundlaugum í Pasadena og Glendale hefur jafnframt verið lokað vegna mikils reyks og ösku.

Þyrlur ausa vatni á eldinn.
Þyrlur ausa vatni á eldinn. AFP

Um 900 slökkviliðismenn reyna nú að slökkva eldana, en slökkvistarfið gengur nokkuð hægt. Í ríkinu er heitt veður, þurrt og vindasamt. Aðstæður verða áfram erfiðar í dag, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Skógareldarnir kviknuðu síðasta föstudagskvöld á Sand Canyon-svæðinu í nágrenni við Santa Clarita.

Fjölmargar þyrlur og flugvélar ausa vatni á eldana.

Slökkviliðsstjórinn í Los Angeles segir að um eitt þúsund heimili séu í hættu, en ef ástandið versni þurfi mögulega að rýma 45 þúsund heimili.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert