Grafa fórnarlömb sprengingarinnar

Fjöldi jarðarfara hefur farið fram í dag fyrir fórnarlömb sprengjuárásarinnar í Kabúl í gær. Samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni sem varð 80 manns að bana. Í það minnsta 230 særðust í árásinni.

Árásin beindist gegn kröfugöngu þar sem flestir þátttakenda voru Hazarar, minnihlutahópur í Afganistan og sía-múslimar sem súnní-miðuðu samtökin leggja fæð á.

Forseti landsins hefur leitt bænastund fyrir hinum látnu og  lýst hefur verið yfir þjóðarsorg í landinu. Sumar fjölskyldur leita enn í dag ástvina og hópar fólks safnast saman og lesa nöfn sjúklinga á veggspjöldum utan við sjúkrahúsin og leita í líkhúsum. Ein fjölskylda greindi BBC frá því að fjögurra úr fjölskyldunni væri enn saknað.

Sjá mátti syrgjendur sópa jörð yfir grafir fórnarlamba. Á hæð einni mátti sjá vinnuvél grafa fyrir frekari jarðsetningum. Allar almenningssamkomur og mótmæli hafa verið bönnuð af ríkisstjórninni næstu 10 daga vegna árásarinnar.

Þúsundir Hazara höfðu verið við kröfugönguna á Deh Mazang-torgi vegna nýrrar rafmagnslínu þar sem farið var fram á að henni yrði beint í gegnum héruð þeirra í Mið-Afganistan sem líða mikinn rafmagnsskort.

Sandalar í blóðugri hrúgu

Litlar upplýsingar hafa verið birtar um hina látnu. Þeirra á meðal var afganski blaðamaðurinn Hussiani Mohammadi samkvæmt BBC auk þess sem greint hefur verið frá ónefndu fórnarlambi sem var eina fyrirvinna fjölskyldu sinnar. Frændi mannsins, Sayed Mohammad, sagði fréttastofu Reuters frá því að hann hefði fundið sandala mannsins í hrúgu af blóðugum munum á vettvangi. Auk hans létust þrír aðrir ættingjar Mohammad.

Heimildamaðurinn innan afgönsku leyniþjónustunnar tjáði BBC að Abo Ali, leiðtogi innan samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki, hafi sent þrjá sprengjumenn frá Nangarhar-héraði til að fremja ódæðisverkið.

Svo virðist sem aðeins einum hafi þó tekist að sprengja sig upp. Belti annars hafi ekki sprungið og sá þriðji var skotinn af öryggissveitum samkvæmt heimildamanninum.

Lík mótmælenda á vettvangi árásarinnar.
Lík mótmælenda á vettvangi árásarinnar. AFP

Byggja skýjakljúfa úr blóði okkar

Einn mótmælendanna, Sabira Jan, lýsti því sem gerðist fyrir BBC.  „Við vorum að halda friðsamleg mótmæli þegar ég heyrði hvell og svo voru allir að flýja og æpa. Ég sá marga sem voru drepnir og flestir voru þeir þaktir blóði. Það var enginn að hjálpa fórnarlömbunum. Lögreglumenn voru að horfa á okkur og eftir það heyrði ég byssuskot, svo veit ég ekki hvað gerðist.“ 

Hazarar búa flestir í miðju Afganistan og hafa lengi kvartað undan mismunun. Á tíunda áratugnum, þegar Talíbanar réðu ríkjum, flúðu margir þeirra til Pakistan, Íran og Tadsjikistan.

Sumir Hazarar eru ævareiðir bæði ríkisstjórn landsins og eigin pólitísku leiðtogum sem þeir segja hafa misnotað langvarandi undirokun samfélags síns til að styrkja eigin völd.

„Þeir seldu okkur og því munum við aldrei gleyma,“ sagði Ghulam Abbas, syrgjandi fjölskyldumaður, í samtali við Reuters. „Þeir hafa byggt skýjakljúfa fyrir sjálfa sig og fjölskyldur sínar úr blóði okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert