Þúsund Tyrkja söfnuðust saman

Stuðningsmenn Erdogan við brúna yfir Sæviðarsund fyrir helgi.
Stuðningsmenn Erdogan við brúna yfir Sæviðarsund fyrir helgi. AFP

Tugþúsundir Tyrkja söfnuðust saman í Istanbúl í dag og fordæmdu valdaránstilraunina í landinu fyrir síðustu helgi. Lýðveldisflokkurinn, CHP, skipulagði fjöldafundinn, sem var studdur flokki Erdogans, Lýðræðis- og þróunarflokknum, AKP.

BBC segir tyrkneskum fánum hafa verið veifað og margir stuðningsmanna CHP hafi borið fána með mynd af Mustafa Kemal Atatürk, fyrsta forseta lýðveldisins Tyrklands, sem jafnan er kallaður stofnandi þess.

„Þingið stóð stolt, Tyrkland stóð stolt, þingmenn stóðu stoltir, fólk á þessu torgi stóð stolt og lýðræðið stóð stolt!“ sagði Kemal Kilicdaroglu, leiðtogi CHP, í ræðu sinni. Hann undirstrikaði þó einnig mikilvægi frjálsra fjölmiðla, frjálsra samkoma og hættuna sem fylgir einræði og valdboði. „Ríkinu má ekki stjórna af gremju, reiði og fordómum.“ Þeir sem ábyrgir væru fyrir valdaránstilrauninni, ættu að fá réttlát réttarhöld.

Sjaldgæf samstaða hefur skapast milli pólitískra fylkinga í landinu eftir valdaránstilraunina og sýndu sjónvarpsstöðvar hliðhollar Erdogan til að mynda frá ræðu leiðtoga stjórnarandstöðuflokksins í dag.

Þúsund hafa verið handtekin eða vísað úr starfi eftir atburði vikunnar, þar á meðal hermenn, dómarar, embættismenn, kennarar og yfirmenn háskóla.

Mannréttindasamtökin Amnesty International segjast hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að þeir handteknu séu lamdir, pyntaðir og þeim nauðgað. „Það er mikilvægt að tyrknesk stjórnvöld stöðvi þetta ógeð og leyfi alþjóðlegum eftirlitsmönnum að heimsækja alla fangana þar sem þeim er haldið,“ segir yfirmaður Amnesty í Evrópu, John Dalhuisen, í yfirlýsingu.

Tyrkneskir fjölmiðlar hafa eftir Harun Kodalak, yfirsaksóknara í höfuðborginni, Ankara, að 1.200 hermönnum hafi verið sleppt úr haldi. Eru þeir sagðir lágt settir innan hersins.

Neyðarástandi var lýst yfir í landinu á miðvikudag, sem gefur ríkisstjórninni heimild til setja lög án tilkomu þingsins og setja hömlur á rétt og frelsi fólks. Erdogan Tyrklandsforseti hefur lengt þann tíma sem halda má föngum án ákæru í 30 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert