Vilja eyðileggja flokkinn

John McDonnell.
John McDonnell. AFP

John McDonnell, skuggaráðhera breska Verkamannaflokksins, segir að sumir andstæðingar Jeremy Corbyns, leiðtoga flokksins, séu tilbúnir til þess að „eyðileggja“ flokkinn einungis í því skyni að koma Corbyn frá völdum.

Hann segir að „lítill hópur manna“ beri ábyrgð á uppþotinu sem hefur orðið í flokknum. 

Yfir þrír fjórðu þingmanna flokksins hafa lýst yfir vantrausti á Corbyn. Þeir segjast ekki treysta honum til þess að leiða flokkinn áfram. Þingmaðurinn Owen Smith hefur ákveðið að fara fram gegn Corbyn í leiðtogakjöri flokksins. Úrslitin verða ljós í septembermánuði.

„Við verðum að stöðva þá,“ sagði McDonnell í samtali við breska ríkisútvarpið í morgun og átti við þá sem vilja bola Corbyn frá völdum.

Hann taldi þó að flestir þingmenn flokksins myndu virða niðurstöðuna ef Corbyn sigraði í leiðtogakjörinu. Flestir þeirra vildu nefnilega bara „halda áfram vinnu sinni“.

McDonnell, sem er einn nánasti bandamaður Corbyns, viðurkenndi þó að Corbyn hefði gert ýmis mistök sem leiðtogi flokksins. Þeir myndu báðir segja af sér ef Verkamannaflokkurinn tapaði í næstu þingkosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert