15 myrtir í árás á heimili fyrir fatlaða

Árásin átti sér stað í borginni Sagamihara, og er árásarmaðurinn …
Árásin átti sér stað í borginni Sagamihara, og er árásarmaðurinn sagður hafa gefið sig fram við lögreglu.

Að minnsta kosti 15 manns fórust í árás á heimili fyrir fatlaða í nágrenni Tókýó í Japan um hálfþrjúleytið í nótt að japönskum tíma. Upplýsingar um árásina, sem er mannskæðasta árás í Japan hin síðustu ár, eru enn að berast.

Fréttavefur BBC segir að ráðist hafi verið á fólkið með hníf og að a.m.k. 15 séu látnir og 45 til viðbótar sárir eftir árásina. Fréttastofa Sky segir 19 látna og 20 til viðbótar hafa særst í árásinni sem átti sér stað í borginni Sagamihara.

Árásarmaðurinn, sem er á þrítugsaldri, var handtekinn eftir að hafa gefið sig fram við lögreglu.

Uppfært 22:07

Sky-fréttastofan segir árásarmanninn hafa verið fyrrverandi starfsmann á heimilinu sem hafi brotist þar inn.

Haft var samband við neyðarlínuna um hálfþrjúleytið í nótt að japönskum tíma og beðið um aðstoð að Tsukui Yamayuri, sem er heimili fyrir fatlaða.

Er árásarmaðurinn sagður hafa gefið sig fram við lögreglu um hálftíma síðar, með orðunum: „Ég gerði það.“

Uppfært: 22:54

Dagblaðið Asahi Shimbun segir manninn einnig hafa sagt við lögreglu: „Ég vil losa heiminn við fatlaða.“

Richard Lloyd Parry, sem er ritstjóri The Times í Asíu, sagði Sky að ekkert benti til að árásin væri af pólitískum toga. „Þetta er ekki eins og árásirnar sem hafa orði í Þýskalandi sl. daga. Þetta er einhver, sem mögulega á harma að hefna – og greinilega einhver sem er sturlaður.“

Parry sagði árásir af þessum toga sjaldan eiga sér stað í Japan. „Þetta er einstaklega öruggt land. Tíðni morða og ofbeldis og alvarlegra glæpa af öllum toga er mjög lág.“  

Hann sagði byssulöggjöf vera mjög stranga í Japan,en Japanir ættu almennt beitta hnífa heimafyrir til matargerðar og það væri vopnið sem yfirleitt væri notað í alvarlegum árásum.

Árið 2008, keyrði maður flutningabíl inn í Akihabara verslunarhverfið í Tókýó, áður en hann steig út úr bílnum og réðist á vegfarendur með hnífi með þeim afleiðingum að sjö manns létu lífið.

Árásina gerði hann sama dag og maður, sem átti við geðsjúkdóma að stríða, hafði myrt átta börn með hnífi í barnaskóla í Osaka árið 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert