87 lík finnast við strendur Líbýu

Hluti hóps 137 hælisleitenda og flóttamanna, sem bjargað var af …
Hluti hóps 137 hælisleitenda og flóttamanna, sem bjargað var af strandgæslunni sl. fimmtudag, situr hér við höfnina í Tagiura í Líbýu. AFP

Alls hafa 87 lík fundist við strendur hafnarborgarinnar Sabratha í Líbýu frá því um helgina. Líkum tók að að skola upp á ströndina sl. föstudag og á laugardag fann hópur sjálfboðaliða, sem borgaryfirvöld hafa þjálfað til slíkrar leitar, lík 41 einstaklings.

Farið hefur verið þau með í líkhús borgarinnar, þar sem tekin eru úr þeim lífsýni áður en þau eru send til greftrunar. Fleiri lík hafa svo fundist á ströndinni í gær og í dag.

Mikið er um ólöglegan flutning  á hælisleitendum og flóttamönnum frá Líbýu yfir sumarmánuðina, þegar Miðjarðarhafið er almennt  gott til sjóferða. Smyglarar fylla þá báta, sem eru misvel útbúnir fyrir sjóferðina, af flóttamönnum og hælisleitendum sem eru örvæntingarfullir að hefja nýtt líf í Evrópu.

Þeir sem stunda smygl á fólki hafa nýtt sér hve óstöðugt stjórnarfar hefur verið í Líbýu frá 2011, er einræðisherranum Moammar Gaddafi var steypt af stóli, til að auka smyglstarfsemi sína.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert