Gruna Rússa um lekann til Wikileaks

Hillary Clinton bíður þess að stíga á svið á kosningafundi …
Hillary Clinton bíður þess að stíga á svið á kosningafundi í Charlotte í Norður-Karólínu. Flokksþing Demókrataflokksins hófst í dag og fer fram í skugga leka á tölvupóstum margra háttsettra einstaklinga í flokksforystunni. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI staðfesti í dag að verið sé að rannsaka lekann á tölvupóstum frá háttsettum forystumönnum í Demókrataflokknum. Fréttastofa CNN segir bandaríska embættismenn gruna að Rússar séu að baki tölvuárásinni.

„FBI rannsakar nú tölvuárás tengda flokksþingi Demókrataflokksins og við erum að meta eðli og stærð vandans,“ sagði í yfirlýsingu frá alríkislögreglunni.  „Ógn af þessari gerð er nokkuð sem við tökum mjög alvarlega og FBI mun halda áfram að rannsaka og sækja til saka þá sem hætta stafar af í netheimum.“

Tölvulekinn er, að sögn bandarískra embættismanna, hluti af bylgju rússneskra tölvuárása sem m.a. beinast gegn stjórnmálasamtökum.

Tæp­lega 20 þúsund tölvu­póst­ar í eigu hátt­settra for­ystu­manna í Demó­krata­flokkn­um voru birt­ir um helg­ina á upp­ljóstr­un­ar­vefn­um Wiki­leaks. A.m.k. tveir póst­anna benda til þess að hátt­sett­ir aðilar í flokkn­um hafi reynt að grafa und­an fram­boði Sand­ers með því að ýta und­ir tor­tryggni vegna trú­ar­skoðana hans og upp­runa og sagði formaður Demó­krata­flokks­ins, Debbie Wass­erm­an Schultz, af sér í kjöl­farið.

Tilgangurinn að hjálpa framboði Trump?

Wikileaks hefur ekki gefið upp hvaðan póstarnir komi, en starfsfólk kosningabaráttu Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, hefur kennt Rússum um og segir tilganginn þann að hjálpa framboði Donald Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins.

FBI hefur sent sérfræðinga til fundar við landsnefnd Repúblikanaflokksins til að ræða öryggismál, en ekki hefur enn verði gerð sambærileg tilraun til að komast inn í pósta flokksforystu repúblikana.

Robby Mook, sem stýrir kosningabaráttu Clinton, segir breytingar á stefnuskrá repúblikana sem geri stefnu flokksins ásættanlegri fyrir Rússa kunna að vera ástæðuna að baki árásunum.

„Ég held að það sé enginn tilviljun að þessir tölvupóstar voru birtir daginn fyrir flokksþing okkar og það veldur mér verulegum áhyggjum,“ sagði Mook í viðtali við CNN.

New York Times hafði eftir Trump í síðustu viku að Bandaríkin myndu ekki verja önnur NATO ríki gegn ágangi Rússa, hafi þau ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart Bandaríkjunum.

Donald Trump Jr., sonur Trump, neitar því að framboð föður hans hafi á nokkurn hátt hvatt Rússa til tölvuárása á Demókrataflokkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert