Háar sektir fyrir gosbrunnabað

Trevi-gosbrunnurinn.
Trevi-gosbrunnurinn. Ljósmynd/Wikipedia

Það kann að hljóma lokkandi og ævintýralegt að svala sér í hinum fræga Trevi-gosbrunni á miðnætti en aðgerðir lögregluyfirvalda í Róm, sem miða að því að draga úr slíkum uppátækjum, hafa kostað fjölda ferðamanna drjúgan skilding.

Lögregla sagði frá því í dag að tveir ungir Kaliforníubúar hefðu verið sektaðir um 450 evrur hvor síðastliðna helgi, eftir að þeir reyndu að feta í fótspor hinnar sænsku Anitu Ekberg, sem veður gosbrunninn í kvikmyndinni La Dolce Vita.

Milljónir manna heimsækja hinn 300 ára minnisvarða ár hvert en sagan segir að hver sá sem drekkur úr brunninum öðlist eilífa ást. Með hækkandi hita, sem hefur farið í allt að 35 stig í sumar, hafa fleiri hins vegar freistast til að afklæðast og baða sig í tæru vatninu.

Breskir ferðamenn voru sektaðir fyrir slíkt athæfi í síðustu viku en Rómarlögreglan er víðar á verði en við Trevi-gosbrunninn. 22 ára Bandaríkjamaður var t.d. sektaður um helgina við gosbrunninn við Spænsku tröppurnar, sem koma við sögu í kvikmyndinni Roman Holiday.

Þá má einnig nefna unga Ítali sem sprikluðu í gosbrunni á Piazza del Popolo og voru nappaðir af lögreglu eftir að hafa birt mynd af brotinu á Facebook.

Marcello Mastroianni og Anita Ekberg í myndinni La Dolce Vita.
Marcello Mastroianni og Anita Ekberg í myndinni La Dolce Vita.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert