Hinir látnu voru 14 og 18 ára

Staðurinn var að loka eftir „Swimsuit Glow Party“ fyrir ungmenni …
Staðurinn var að loka eftir „Swimsuit Glow Party“ fyrir ungmenni þegar skotárásin átti sér stað. AFP

Tveir létust og 20 særðust í skotárás fyrir utan næturklúbb í Fort Myers í Flórída á miðnætti þegar foreldrar voru að sækja börn sín eftir ungmennaviðburð. Hinir látnu voru Sean Archilles, 14 ára, og Stefan Strawder, 18 ára, sem staðarmiðlar lýsa sem frambærilegum körfuknattleiksmanni.

Frétt mbl.is: Yngstu fórnarlömbin 12 ára

Ekki er vitað hvað ástæður lágu að baki árásinni á bílastæði Club Blu, en lögregla segir ekki um hryðjuverk að ræða. Þrír eru í haldi en lögregla leitar fleiri aðila, að sögn lögreglustjóra Fort Myers, Dennis Eads.

Þrír eru í haldi vegna árásarinnar og fleiri er leitað.
Þrír eru í haldi vegna árásarinnar og fleiri er leitað. AFP

Það var ríkisstjórinn Rick Scott sem staðfesti að tveir unglingar hefðu látist í árásinni og 20 særst. Áður hafði lögregla sagt að 14-16 hefðu hlotið minniháttar til lífshættuleg sár.

Scott sagði hug og hjarta allra vera hjá öllum þeim sem árásin hefði snert og að réttlætinu yrði fullnægt. Um sex vikur eru liðnar frá því að byssumaður myrti 49 á skemmtistað fyrir samkynhneigða í Orlando í Flórída. Þar var um að ræða mesta mannfall í árás frá 11. september.

Vitni að árásinni í dag lýstu því hvernig fólk forðaði sér þegar skothvellir heyrðust við næturklúbbinn. „Í þann mund er klúbbnum var lokað og foreldrar voru að sækja börnin sín ... gerðist þetta,“ sagði í yfirlýsingu frá Club Blu. „Við finnum til með öllum hlutaðeigandi. Við reyndum að skapa það sem við töldum að væri öruggt umhverfi fyrir unglingana til að eiga góðar stundir.“

Samkvæmt yfirlýsingunni var vopnuð gæsla utanhúss og innan.

20 eru særðir eftir árásina.
20 eru særðir eftir árásina. AFP

Að sögn íbúa í nágrenninu voru börnin sem sóttu viðburðinn 13 ára og eldri.

Nálæg heimili og bifreiðir urðu fyrir byssukúlum. Svæðið var úrskurðað öruggt í dag en nokkrar götur voru enn lokaðar. Rannsókn fer enn fram á vettvangi og er unnið að því að finna hina seku og komast að því hvað þeim gekk til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert