Jordan tjáir sig um byssu- og lögregluofbeldi – heitir fjárhagsstuðningi

Michael Jordan er eini svarti maðurinn sem er meirihlutaeigandi liðs …
Michael Jordan er eini svarti maðurinn sem er meirihlutaeigandi liðs í NBA-deildinni. Umrætt lið er Charlotte Hornets. AFP

Körfuboltagoðið Michael Jordan hefur tjáð sig um byssuofbeldi og kynþáttaspennu í Bandaríkjunum og heitið því að veita umtalsverðum fjármunum í lausnir. Í erindi, sem birtist á vefsíðunni theundefeated.com, segist Jordan áhyggjufullur vegna dauðsfalla svartra af hendi lögreglu, og sömuleiðis reiður vegna morða á lögreglumönnum.

„Ég syrgi með þeim fjölskyldum sem hafa misst ástvin, því ég þekki sársauka þeirra vel,“ segir íþróttahetjan m.a.

Í bréfinu sem birtist á theundefeated.com, sem studd er af sjónvarpsstöðinni ESPN, segist Jordan munu veita tvennum samtökum eina milljón dollara hvorum í styrk, til að bæta samskipti milli löggæsluyfirvalda og samfélaganna sem þau starfa í. Samtökin eru Institute for Community Police Relations og Legal Defense Fund NAACP.

„Jafnvel þótt ég viti að þessi framlög ein og sér nægja ekki til að leysa vandann, þá vona ég að framlagið hjálpi báðum samtökum að koma á jákvæðum breytingum,“ segir Jordan í bréfinu.

Faðir körfuboltahetjunnar, James Jordan, var myrtur árið 1993. Skömmu síðar fór Jordan fyrir Chicago Bulls þegar liðið vann sinn þriðja NBA-meistaratitil. Jordan vann alls sex titla með Bulls en þótti þögull um samfélagsleg málefni þegar frægð hans var hvað mest.

„Ég get ekki þagað lengur,“ sagði hann í samtali við The Undefeated.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert