Morðum fjölgar í Mexíkó

Bar á Acapulco ströndinni, þar sem byssumaður varð öðrum að …
Bar á Acapulco ströndinni, þar sem byssumaður varð öðrum að bana. Acapulco nýtur þess vafasama heiðurs að vera "morðahöfuðborg" Mexíkó. AFP

Rúmlega 20.500 morð voru framin í Mexíkó á síðasta ári sem er örlítið aukin tíðni frá 2014, en þá hafði tíðni morða í landinu farið lækkandi árin þrjú á undan, að því er fram kemur í upplýsingum frá mexíkóskum yfirvöldum.

Alls voru 20.525 manns myrtir í Mexíkó 2015, en 20.010 árið á undan, sem svarar til 17 morða á hverja 100.000 íbúa.

Morðum hóf að fjölga verulega í Mexíkó árið 2006, er yfirvöld hófu herferð gegn eiturlyfjahringjum í landinu. Morðaldan náði síðan hámarki árið 2011 þegar 27.213 manns voru  myrtir, sem jafngildir 24 morðum á hverja 100.000 íbúa. 2012 voru 25.967 manns myrtir og 2013 voru þeir 23.063.

Mexíkóska tölfræðistofnunin tekur ekki sérstaklega fram hvort morðmálin tengist eiturlyfjaátökum, en skotvopn voru notuð í rúmlega 12.000 tilfellum.

Verst var ástandið í Guerrero, fátæku fylki í suðurhluta landsins, þar sem tíðni morða er 67 á hverja 100.000 íbúa.

Mikil átök hafa átt sér stað í Guerrero í tengslum við baráttu eiturlyfjagengja um yfirráð yfir valmúaökrum til ópíumframleiðslu á svæðinu.

Þá fær ferðamannastaðurinn Acapulco þann vafasama heiður að teljast morðahöfuðborg Mexíkó, en tíðni morða í borginni var 111 á hverja 100.000 íbúa í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert