Prestur læsti son sinn inni og svelti hann

Drengurinn var mjög vannærður. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Drengurinn var mjög vannærður. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Nígerískur prestur hefur verið handtekinn fyrir að handjárna níu ára gamlan son sinn inni í lokuðu herbergi í nokkrar vikur og neita honum um mat. 

Muyiwa Adeobi, talsmaður lögreglunnar, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að lögreglan hefði fengið ábendingu um að drengurinn hefði verið læstur inni í herbergi nálægt kirkju í borginni Atan í Ogun héraðinu. Lögreglumenn hafi mætt á staðinn, brotið upp hurðina og bjargað drengnum. 

Adeobi sagði drenginn hafa verið handjárnaðan fastan við gólfið í herberginu. „Hann var í mjög slæmu ástandi og virkilega vannærður þar sem hann hafði ekki fengið neitt að borða. Hann sagði að faðir sinn svelti sig reglulega og að hann hefði verið læstur inni í herberginu í yfir mánuð,“ sagði hann.

„Það er sláandi og óskiljanlegt að maður sem segist vera guðsmaður stundi jafn ómannúðlegt athæfi.“

Adeobi sagði hinn 40 ára gamla prest hafa sagt að um trúarlega athöfn væri að ræða, þar sem hann væri að reyna að kenna syni sínum að hætta að stela. „Maðurinn sagði að sonur sinni væri alltaf að stela af honum hlutum og til að stöðva það hefði hann þurft að læsa hann inni svo hann myndi ekki hlaupa í burtu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert