Réttað yfir meintum morðingjum Nemtsov

Stuðnigsmenn Nemtsov minnast hans í Moskvu.
Stuðnigsmenn Nemtsov minnast hans í Moskvu. AFP

Lokuð réttarhöld yfir þeim, sem eru grunaðir um að bera ábyrgð á morðinu á rússneska stjórnmálamanninum Boris Nemtsov á síðasta ári, hófust í herrétti í Moskvu í dag.

Nemtsov var fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra Rússlands og einn helsti gagnrýnandi Vladimir Pútíns, forseta Rússlands. Hann var skotinn til bana þegar hann gekk yfir brú í miðborg Moskvu 27. febrúar 2015.

Fimm Tjétseníumenn eru grunaðir um að bera ábyrgð á morðinu. Þeir neita sök en verði þeir sakfelldir gætu þeir setið í fangelsi til æviloka.

Rússneskir rannsakendur segja að lágt settur embættismaður í Tjétseníu, Ruslan Mukhudinov, hafi fyrirskipað morðið en flúði Rússland í kjölfarið. Á hann að hafa boðið mönnunum fimm 15 milljónir rúbla, eða jafnvirði 28 milljóna íslenskra króna, fyrir að myrða Nemtsov.

Frétt mbl.is: Þúsundir minntust Nemtsov

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert