Sanders hvetji demókrata til samstöðu

Stuðningsmenn Bernie Sanders hafa boðað til frekari mótmæla í dag.
Stuðningsmenn Bernie Sanders hafa boðað til frekari mótmæla í dag. AFP

Búist er við að Bernie Sanders, sem átti í harðri baráttu við Hillary Clinton um hvort þeirra yrði forsetaefni Demókrataflokksins, muni í ræðu sinni á flokksþingi Demókrataflokksins í Philadelphiu síðar í dag hvetja stuðningsmenn sína til að flykkjast að baki Clinton.

Fréttavefur BBC segir að Sanders muni draga upp þá mynd af Clinton að hún sé mun betra forsetaefni en Donald Trump, frambjóðandi Repúblikanaflokksins.

Stuðningsmenn Sanders hafa staðið fyrir mótmælum í Fíladelfíu og margir þeirra hafa sagt að þeir muni aldrei kjósa Clinton.

Flokksþingið fer fram í skugga þess að tölvu­póst­um var lekið sem benda til þess að for­ystu­menn flokks­ins hafi reynt að grafa und­an Bernie Sand­ers sem keppti við Cl­int­on um að verða for­setafram­bjóðandi demó­krata. Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur staðfest að hún sé nú að rannsaka lekann.

Formaður Demó­krata­flokks­ins, Debbie Wass­erm­an Schultz, sagði af sér í gær vegna málsins.

Starfsfólk kosningabaráttu Clinton hefur fullyrt að tölvuþrjótarnir sem láku póstunum séu Rússar sem vilji sjá Trump sem næsta forseta Bandaríkjanna.

Fleiri mótmælagöngur skipulagðar

Tölvupóstarnir hafa vakið mikla reiði meðal stuðningsmanna Sanders, en þeir hafa lengi haldið því fram að flokksstjórnin hafi dregið taum Clinton þrátt fyrir kröfu um að flokksstjórnin sé hlutlaus.

Fjöldi stuðningsmanna Sanders tóku þátt í mótmælagöngu í Fíladelfíu á sunnudag til að sýna fram á óánægju sína með Clinton og stuðning við Sanders.  Frekari mótmælagöngur hafa verið skipulagðar í dag.

Darcy Samek, gerði sér ferð frá Minneapolis til að taka þátt í mótmælunum og hún sagði vel vitað að flokkstjórnin hefði verið ósátt við Sanders.

„Allir vissu það bara, en það þýðir ekki að það breyti neinu þó það sé nú búið að sanna það,“ sagði hún. „Þetta verður bara meira af því sama.“

Haft hefur verið eftir Sanders að innihald tölvupóstanna komi honum ekki á óvart, en að hann vilji engu að síður beina sinni athygli að því að hjálpa Demókrataflokknum að sigra Donald Trump.

Starfsfólk kosningabaráttu Sanders segir ræðu hans í dag „taka af allan vafa um að Clinton standi Trump framar hvað öll helstu málefni varðar, allt frá fjármálum til heilbrigðismála, til menntamála og til umhverfismála.“

Um 5.000 flokksfulltrúar eru meðal þeirra 50.000 sem búist er við að mæti á flokksþingið, sem lýkur á fimmtudag þegar Clinton tekur formlega við útnefningu sem forsetaefni flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert