Skotárás í næturklúbbi í Flórída

Árásin var gerð fyrir utan næturklúbb í Fort Meyers í …
Árásin var gerð fyrir utan næturklúbb í Fort Meyers í Flórída Google maps

Allt að sautján eru særðir eftir skotárás í Bandaríkjunum í nótt. Samkvæmt frétt AFP eru að minnsta kosti tveir látnir. Árásin var gerð á sérstöku kvöldi fyrir unglinga í næturklúbbnum Club Blu i í Fort Meyers í Flórída-ríki. Samkvæmt frétt Sky News voru yngstu gestir klúbbsins þrettán ára gamlir. 

Að sögn lögreglu er viðamikil aðgerð í gangi inni á klúbbnum en ekki fengust staðfestar fregnir af dauðsföllum eða árásarmönnum eða manni.

Samkvæmt frétt NBC hóf árásarmaður skothríð á bílastæði næturklúbbsins um klukkan hálf eitt eftir miðnætti að staðartíma. Að sögn lögreglu eru 14-16 manns særðir og sumir þeirra í lífshættu. Einn grunaður hefur verið handtekinn.

Lögregla rannsakar tvær aðrar skotárásir í borginni sem eru taldar tengjast árásinni við klúbbinn. Tilkynnt var um skothvelli inni á heimili í borginni og inni í bifreið þar sem fólk hlaut minniháttar áverka.

Samkvæmt frétt Sky News hafa þrír verið handteknir. 

Aðeins eru sex vikur síðan að 49 létu lífið í skotárás á næturklúbbi í Orlando í Flórída. Var það blóðugusta skotárás í sögu Bandaríkjanna. Lögregla skaut árásarmanninn, Omar Mateen, til bana eftir þriggja tíma umsátur. 

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert