Smygluðu rúmlega 1.000 manns til V-Evrópu

Austurrískir lögreglumenn leita í bíl á landamærum Austurríkis og Ungverjalands. …
Austurrískir lögreglumenn leita í bíl á landamærum Austurríkis og Ungverjalands. Smyglarar nýta sér neyð margra flóttamanna og hælisleitenda og bjóðast til að smygla þeim frá Ungverjalandi gegn greiðslu. AFP

Austurríska lögreglan greindi frá því í dag að lögreglu hefði tekist að uppræta smyglhring, sem grunaður er um að hafa smyglað meira en 1.000 manns yfir landamærin frá Ungverjalandi til Vestur-Evrópu sl. ár.

Rúmlega 100 lögreglumenn í Austurríki, Þýskalandi, Póllandi og Ungverjalandi tóku þátt í aðgerðunum, en rassía var gerð í 12 húseignum sl. fimmtudag og sjö einstaklingar, sem taldir eru höfuðpaurar smyglhringsins, voru handteknir.

Smyglhringurinn rukkaði að sögn lögreglu 300 evrur, eða um 40.000 krónur, fyrir flutninginn frá Ungverjalandi til Vínar og 700–800 evrur (94.000–108.000 kr.) fyrir flutninginn til Þýskalands, en flóttamennirnir voru jafnan fluttir í bílalest og fékk ökumaðurinn 700 evrur greiddar fyrir hverja ferð.

„Þetta heldur áfram að vera mjög ábatasamur rekstur,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Gerald Tatzgern, sem fer fyrir mansalsmálum innan austurrísku lögreglunnar.

Mikill flóttamannastraumur fór í gegnum Austurríki og Ungverjaland á síðasta ári, þegar hundruð þúsunda flóttamanna og hælisleitenda, sem margir hverjir voru að flýja átökin í Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum ríkjum, komu til Vestur-Evrópu í gegnum Grikkland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert