Trump með meira fylgi en Clinton

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Forsetaframbjóðandi repúblikana í Bandaríkjunum, Donald Trump, mælist með meira fylgi en keppinautur hans, Hillary Clinton, frambjóðandi demókrata, í nýrri skoðanakönnun sem gerð var fyrir bandarísku sjónvarpsstöðina CNN. Frá þessu er greint á fréttavef stöðvarinnar í dag.

Trump mælist með 44% fylgi, Clinton með 39%, Gary Johnson, frambjóðandi Frjálshyggjuflokksins, 9% og Jill Stein, frambjóðandi Græningja, 3%. Ef aðeins er miðað við Trump og Clinton er Trump með 48% en Clinton með 45% fylgi. Fylgi Trumps hefur aukist um 6 prósentustig frá fyrri könnun þegar aðeins er miðað við fylgi þeirra tveggja.

Fram kemur í frétt CNN að þetta sé besta mæling Trumps í samanburði við Clinton í skoðanakönnunum fyrir sjónvarpsstöðina síðan í september 2015. Ennfremur segir að Clinton hafi aukið fylgi sitt á meðal háskólamenntaðra en fylgi Trumps á meðal Bandaríkjamanna sem ekki hafa sótt sér háskólamenntun hafi að sama skapi aukist.

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert